Fonterra dregur úr framleiðslu á lífrænni mjólk
20.09.2011
Þegar þrengir að hjá neytendum hefur það margoft komið í ljós að með því fyrsta sem hverfur úr innkaupakörfunni eru dýr matvæli. Þar á meðal eru lífrænt vottaðar vörur og nú hefur mjólkurrisinn Fonterra, sem er með starfsemi í 140 löndum, ákveðið að draga úr framleiðslu á lífrænum mjólkurvörum.
Samkvæmt fréttavefnum Agrimoney telja forsvarsmenn Fonterra ekki líklegt að sala lífrænna vara nái sömu hæðum og hún hafði náð fyrir efnahagskreppuna sem reið yfir heiminn 2008. Af þessum sökum hefur félagið nú tekið þetta skref og verður lífrænt vottuð framleiðsla félagsmanna Fonterra helminguð.
Af gefnu tilefni er rétt að taka fram að Fonterra, sem eins og áður segir starfar fyrst og fremst á heimsmarkaði, hefur aldrei lagt mikla áherslu á lífræna mjólkurframleiðslu. Þannig voru ekki nema 100 kúabú í framleiðslu á lífrænni mjólk fyrir efnahagsástandið/SS.