Beint í efni

Fonterra byggir risa vinnslustöð!

14.12.2016

Nýsjálenska afurðafélagið Fonterra hefur nú hafið byggingu á stærðarinnar vinnslustöð fyrir mozzarella ost en með nýju vinnslustöðinni tvöfaldast vinnslugeta Fonterra á mozzarella osti! Um gríðarlega fjárfestingu er að ræða en áætlaður kostnaður við stöðina eru um 19 milljarðar íslenskra króna. Hin nýja vinnslustöð verður byggð í tengslum við aðra vinnslustöð Fonterra í Suður Canterbury á Nýja-Sjálandi og verður sú stærsta í mozzarella ostagerð á suðurhveli jarðar.

 

Það er stöðugt vaxandi eftirspurn eftir rifnum osti í Kína sem skýrir þessa miklu fjárfestingu Fonterra en samkvæmt fréttatilkynningu félagsins þá hafa neysluvenjur í þéttbýli Kína breyst verulega á liðnum árum og borða nú nærri 40% íbúa landsins, sem búa í þéttbýli, það sem kalla mætti vestrænan mat. Þar eru flatbökur sérstaklega vinsælar á borðum landsmanna og hefur Fonterra mikla sérstöðu á kínverska markaðinum en önnur hver flatbaka er með osti á frá félaginu.

 

Hin nýja vinnslustöð verður tilbúin haustið 2018 og þá munu 100 manns starfa þar við mozzarellagerð/SS.