Beint í efni

Fóðurverð heldur áfram að hækka

10.01.2011

Síðustu tveir mánuðir ársins 2010 viku ekki frá reglunni varðandi verðþróun á fóðri á heimsmarkaðinum, er hráefni til fóðurgerðar héldu áfram að hækka. Þannig kostaði fóðurhveiti í lok ársins á breska markaðinum um 37.800 kr/tonnið en tonnið kostaði rétt um 25.000 krónur 12 mánuðum fyrr. Þá hækkaði maís á sama markaði einnig nokkuð, en repjumjöl hélst óbreytt síðustu tvo mánuði ársins. Sojamjöl endaði árið í 53.300 kr/tonnið og hækkaði um 0,7% frá því í nóvember. Naut.is hefur áður greint frá ýmsum ástæðum þess að hráefni til fóðurgerðar hafa verið að hækka hraustlega á liðnum

mánuðum s.s. uppskerubrestir og efnahagsaðgerðir einstakra landa.

 

Þessi þróun hefur eðlilega leitt af sér hækkanir á kjarnfóðri víða um heim og má nefna sem dæmi að meðaltalshækkun í Bretlandi í desember voru 0,5 kr/kg og hefur kjarnfóður þar í landi hækkað um heilar 4,8 kr/kg á einungis einu ári, þ.e. frá því í desember 2009. Þá spá sérfræðingar því að í lok mars á þessu ári verði breskt kjarnfóður fyrir mjólkurkýr búið að hækka enn frekar og um allt að 1,8 kr/kg. Ljóst er að verðþróunin á hráefnum til fóðurgerðar getur varla leitt til annars en hækkunar mjólkurvara á næstu mánuðum, enda spilar fóðurkostnaður stórt hlutverk í verðmynduninni.