Fóðurnýting breytist með áthegðun!
14.08.2015
Ný kanadísk rannsókn á Holstein kúm, sem greint var frá á sameiginlegum ársfundi ADSA og ASAS í Flórída í júní sl., sýnir að kýrnar breyta átvenjum sínum eftir því hvenær fóðrað er innan dagsins og fóðurnýtingin verður einnig önnur. Kýrnar í rannsókninni voru mjólkaðar þrisvar á dag, kl. 7, 14 og 21, og fékk einn hópurinn að ganga beint í ferskt fóður eftir mjaltirnar kl. 7 og 14 en hinn hópurinn var fóðraður kl. 10:30 og kl. 17. Í ljós kom að kýrnar sem ekki fóru beint í nýtt fóður átu minna í einu eða 2,8 kg þurrefnis miðað við 3,1 kíló þurrefnis í hverri átlotu, en þær voru hins vegar með fleiri átlotur á degi hverjum eða 10,1 en hinn hópurinn hafði 9,2 átlotur að jafnaði. Þá átu þær fóðrið einnig hægar eða 0,12 kg þurrefnis á mínútu miðað við 0,13 kíló þurrefnis á mínútu hjá kúnum sem fóru beint í ferskt fóður.
Þrátt fyrir muninn á átlotunum var meðalnytin jafn há í báðum hópum eða 46,3 kg á dag sem samsvarar 14.122 kílóa ársnyt miðað við 305 daga mjaltaskeið. Athygli vekur að fóðurnýtingin var töluvert betri hjá kúnum sem fengu ekki að fara beint í ferskt fóður en þær framleiddu 1,8 kg mjólkur af hverju kílói þurrefnis sem þær átu en hinar framleiddu ekki nema 1,69 kg mjólkur af hverju þurrefniskílói fóðursins. Munurinn, miðað við framangreinda dagsnyt, er því 1,7 kíló þurrefnis á dag og munar heldur betur um minna/SS.