Fóðurblandan með nýja gerð kjarnfóðurs
28.05.2011
Fóðurblandan hefur nú hafið framleiðslu á tveimur nýjum tegundum af köggluðum fóðurbæti fyrir mjólkurkýr og kallast blöndurnar ROBOT 16 og ROBOT 20. Þessar nýju blöndur eru framleiddar sérstaklega fyrir bú sem mjólka með mjaltaþjónum segir í fréttatilkynningu frá Fóðurblöndunni. Skýringin á því afhverju ROBOT blöndurnar henta í mjaltaþjóna felst í kögglagæðum blandanna, en mjöl og mylsna hentar illa í mjaltaþjóna þar sem m.a. áttími kúa lengist verulega.
ROBOT blöndurnar innihalda ríflegt magn af selen og magnesíum, auk þess að notað er lífrænt vottað þangmjöl í fóðrið sem gerir fóðrið mjög lystugt að sögn talsmanna Fóðurblöndunnar. ROBOT blöndurnar fást í 35 kg pokum – 1000 kg sekkjum en einnig er hægt að panta fóðrið í lausu.
Við vinnslu þessarar fréttar reyndist ekki unnt að afla upplýsinga um verð á blöndunum þar sem nýju blöndurnar eru ekki enn komar inn á verðlista Fóðurblöndunnar á heimasíðu fyrirtækisins. Upplýsingar um verð kjarnfóðurs hér á heimasíðunni hafa því eðlilega ekki heldur verið uppfærðar/SS.
Nánari upplýsingar um efnainnihald ROBOT 16 má lesa hér: http://www.fodurblandan.is/Assets/fodur-ROBOT-16.pdf
Nánari upplýsingar um efnainnihald ROBOT 20 má lesa hér: http://www.fodurblandan.is/Assets/fodur-ROBOT-20.pdf