Beint í efni

Flytja typpin úr landi!

19.11.2011

Í liðinni viku mátti sjá í fréttum að á árinu varð mikil aukning í slátrun sauðfjár og lang mesta aukningin varð hjá SAH afurðum ehf. á Blönduósi sem náði til sín stærstum hluta aukningarinnar. Þar sem fyrirtækið er einnig í nautgripaslátrun var upplagt að heyra í framkvæmdastjóranum, Sigurði Jóhannessyni, um nautakjötsmálin. Að sögn Sigurðar hefur slátrun nautgripa hjá fyrirtækinu verið að aukast jafnt og þett undanfarin ár og upptökusvæðið verið að stækka. Það auðveldar fyrirtækinu jafnframt að bæta þjónustuna við bændurna. „Það er hinsvegar áhyggjuefni hversu miklu er slátrað af slökum gripum núna, gripum sem hefðu þurft að bíða lengur og ná meiri þroska. Ég óttast að það verði mikill skortur á nautakjöti þegar líður fram á næsta vor“, sagði Sigurður í viðtali við naut.is.

 
En hvernig sér Sigurður fyrir sér þróun nautakjötsmarkaðarins á Íslandi á komandi árum? „Því miður er það svo að það vantar nautakjötskyn sem er gott til kjötframleiðslu á Íslandi. Vissulega er íslenska kjötið gott, en vaxtarhraðinn er ekki nægur þannig að það er erfitt að láta framleiðsluna standa undir sér. Sá heyskortur sem óumdeilanlega lætur á sér kræla á ýmsum svæðum gerir það að verkum að framboð er mikið núna, en fyrirséð að það dregur úr því á næsta ári. Það á svo eftir að kalla á aukinn innflutning, sem er miður. Íslensk framleiðsla er fyllilega jafngóð að gæðum, en það þarf að stýra framleiðslunni betur þannig að ávalt sé hægt að tryggja nægt framboð á innanlandsmarkaði“.

 

Aðspurður um frekari samruna eða fækkun sláturhúsa á næstu árum þá telur Sigurður þar vera klárlega rými til hagræðingar enda mörg nautgripasláturhús vannýtt, ef ekki öll. „Það veltur þó allt á eigendum sláturhúsanna sem eru jú sem betur fer í mörgum tilfellum bændur. Ef það er vilji bænda til að fækka sláturhúsum þá er það eitthvað sem þeir geta haft veruleg áhrif á í gegnum stjórnir sláturhúsanna“.

 
Í ár hefur útflutningur kindakjöts verið mikið í umræðunni og því liggur beinast við að spyrja um möguleika á útflutningi nautakjöts. Að sögn Sigurðar er verð á nautakjöti til bænda í dag mjög svipað á Íslandi og í Danmörku, svo dæmi sé tekið. „En til hvers að stefna að útflutningi þegar við önnum ekki innanlandsmarkaði, og erum með kúakyn sem hentar ekki til kjötframleiðslu? Er þá ekki betra að stefna fyrst að því að anna heimamarkaði og kanna svo frekari markaðsmöguleika. Það gefur líka auga leið að sláturhús sem slátrar nautum einn dag í viku, nautum sem þyngjast hægt miðað við það sem gerist erlendis, getur seint keppt við sláturhús sem slátrar 5-6 daga í viku“.

 
SAH Afurðir hafa nú hafið útflutning á ýmsum aukaafurðum úr nautum sem áður fyrr hefði trúelga þótt harla ólíkleg söluvara s.s. á nautalöppum, nautaeyrum, nautafésum, nautatyppum, nautahölum, að ógleymdum hefðbundnum nautainnmat, s.s. hjörtum, nýrum, þyndum, lifur, lungum, tungum og kinnum. En hvernig tókst að koma þessum vörum í verð erlendis? „Það hefur verið lagt í mikla vinnu við að þróa og aðlaga vinnsluaðferðir fyrir þessar aukaafurðir að okkar aðstæðum og sem betur fer hefur verulegur árangur náðst. SAH Afurðir eiga fyrirtækið Icelandic Byproducts, ásamt Norðlenska, og hlutverk þess fyrirtækis er m.a. að þróa og auka nýtingu á  öllum aukaafurðum. T.d. hafa SAH Afurðir sent nautavambir, til Akureyrar til vinnslu og við höfum tekið við löppum frá Norðlenska til vinnslu, þannig að þarna er gott samstarf um afurðir sem ekki skila miklu í kassann en kostar mikið að farga“, sagði Sigurður að lokum í viðtali við naut.is/SS.