Beint í efni

Flytja lifandi gripi til Grænlands

20.06.2012

Í nágrannalandi okkar, Grænlandi, gilda nokkuð ólíkar reglur varðandi innflutning á lifandi gripum en hér á landi. Þar geta bændur keypt lifandi gripi frá sérstaklega vottuðum löndum og fá þá beint á bú sín standist gripirnir heilbrigðisskoðun.

 

Þetta kann að hljóma einfalt ferli en er það síður en svo, sem og kostnaðarsamt fyrir viðkomandi bændur, enda landinu brýnt að vernda innlenda sauðnautastofninn fyrir mögulegum sjúkdómum sem þekkjast meðal nautgripa á meginlandi Evrópu.

 

Nýverið fékkst heimild fyrir innflutningi á sjö Galloway kynbótagripum sem koma frá Sjálandi í Danmörku. Þessir Galloway gripir eru fyrstu skosku nautgripirnir sem fara til Grænlands en þess er vænst að skilyrði þar henti vel fyrir þessi harðgerðu naut. Nautgripunum verður siglt til þorpsins Savaalitik þar sem þeim verður beitt á víðfeðm útisvæði.

 

Gripirnir, sex kýr og eitt naut, voru sérstaklega valin út frá skapgerð og frjósemi og vaxtargeta látin mæta afgangi við valið. Ástæðan er sú að lítið er um girðingar og því brýnasti eiginleikinn að lundin sé góð og gripirnir auðveldir í umgengni.

 

Þessa dagana eru lífdýrin í einangrun í Danmörku og verða það fram að útflutninginum. Á einangrunartímanum eru gerðar fjölmargar prófanir gagnvart sjúkdómum og snýkjudýrum og komi í ljós að gripirnir eru alheilbrigðir og ekki taldir ógna heilbrigðisstöðu sauðnautanna í Grænlandi, fara þau í skip og sigla til nýrra heimkynna. Þetta er í annað sinn sem nautgripir fara til Grænlands í ár, en í fyrra tilfellinu var um gripi af hinu smávaxna Dexter kyni að ræða/SS.