Beint í efni

Flugvél lenti á kú

09.09.2013

Flugvél í Indónesíu lenti í því óhappi fyrir nokkru að lenda á kú með þeim afleiðingum að flugvélin, glæný Boeing 737-900 frá flugfélaginu Lion Air, rann út af flugbrautinni. Engan af hinum 110 farþegum um borð sakaði en kýrin drapst samstundis. Óhappið átti sér stað á Jalaluddin flugvellinum á eyjunni Sulawesi, sem er ein af mörg þúsund eyjum í Indónesíu.

 

Að sögn flugstjóra vélarinnar þá sá hann fyrir lendingu eitthvað á miðri flugbrautinni en taldi það vera hunda. Í ljós kom svo að þrjár kýr spókuðu sig þar um á malbikinu en engum sögum fer af hinum tveimur kúm sem lifðu slysið af. Eftir stendur svo spurningin um stærð hunda í Indónesíu eða smæð þarlendra kúa fyrst hægt er að ruglast á þessum all ólíku dýrategundum/SS.