Beint í efni

Flórfræsing – varanleg hálkuvörn

05.08.2011

Í vor fékk Guðmundur Hallgrímsson, sem lengi var ráðsmaður á Hvanneyri, vélbúnað sem fræsir flóra í fjósum svo þeir verði stamari viðkomu. Vélina leigir hann frá Danmörku og er hún þannig upp byggð að í henni eru 17 skurðarskífur, sem fræsa 6 mm breiðar og 2-4 mm djúpar rásir í flórana, með 10 mm millibili. Bæði má fræsa í heil gólf og bita. Það er alkunna, að þrátt fyrir að gerðar séu hálkuvarnir í upphafi, þá slípa t.d. flórsköfur gólfin þannig að með tímanum verða þau hál. Fræsingin eykur því velferð gripanna og minnkar slysahættu, þar sem minni líkur eru á að gripirnir skriki eða detti. Þá auðveldar þetta kúnum að sýna beiðsliseinkenni. 

 

Myndin hér að ofan er tekin í fjósinu á Espihóli í Eyjafjarðarsveit, þar sem bræðurnir Kristinn og Jóhannes Jónssynir búa, en Guðmundur var þar á ferðinni á dögunum með vél sína. Eru þeir bræður ánægðir með árangurinn og mæla með þessari aðferð. Kostnaður við verkið er 2.000 kr pr. fermeter auk vsk. og greitt er 20.000 kr komugjald pr. bæ, auk vsk. til að standa straum að kostnaði við akstur, þrif og annan frágang og undirbúning. Hér að neðan mjá sjá þegar Guðmundur var við vinnu sína í fjósinu í Grímshúsum í Aðaldal, myndin er fengin af fréttavefnum www.641.is Netfang Guðmundar er gh@bondi.is /BHB

 

Guðmundur að störfum. Mynd: Hallgrímur Óli Guðmundsson