
Fljúgandi kýr
28.10.2003
Netmiðill Morgunblaðsins greindi frá því í dag að bóndakonan Nazmiye Serengil hafi verið flutt á spítala eftir að kú sem hún rak út í haga varð fyrir járnbrautarlest og lenti ofan á henni.
Atvikið átti sér stað við þorpið Mus í Tyrklandi. Hafði Serengil rekið tvær kýr út í bithaga við hlið járnbrautarteina.
Önnur þeirra ráfaði upp á teinana og lestarstjóra tókst ekki að nema staðar í tæka tíð svo lestin skall á kúnni.
Við höggið kastaðist kýrin í burtu og flaug í loft upp. Vildi ekki betur til en svo að hún skall á konunni sem sest hafði í grasið nokkrum metrum frá slysstaðnum.
Var bóndakonan flutt á spítala þar sem gert var að fótbroti hennar.
Ekki fer frekari sögum af afdrifum kýrinnnar, hvort hún lifði af ákeyrsluna eður ei.