Fljótandi fjós
18.06.2016
Hollenskt frumkvöðla-fyrirtæki hefur lagt fram áætlun sína um framtíðar mjólkurframleiðslu og hún er þannig að fjósin verða á floti! Ekki þannig að skilja að allt sé á floti innandyra heldur raunverulega á floti, þ.e. fjós sem eru einskonar fljótandi prammar. Þessi hugmynd er tilkomin m.a. til þess að færa framleiðsluna nær neytendum og til þess að draga úr kolefnisfótspori framleiðslunnar. Þá ættu þessi fljótandi fjós framtíðarinnar einnig að geta leikandi staðið af sér mögulega hækkun sjávar – nokkuð sem gæti orðið erfitt fyrir sum kúabú í Hollandi.
Hugmyndasmiðurinn á bak við þetta verkefni er arkitektinn Peter van Wingerden en fyrsta fjósið í heiminum sem er fljótandi verður opnað í haust í hollenska bænum Rotterdam í tengslum við árlega alþjóðaráðstefnu IDF, World Dairy Summit, 16.-21 október/SS.