Beint í efni

Fleiri nautkálfa á stöð!

08.06.2006

Það sem af er árinu hefur framboð á nautkálfum til Nautastöðvar BÍ verið of lítið. Aðeins er búið að tilkynna 12 kálfa á Uppeldisstöðina, en ef vel á að vera þarf 40-50 kálfa á ári, þar sem einungis helmingurinn af þeim hópi fer áfram upp á Hvanneyri. Nú er leitað eftir nautkálfum undan Hersi 97033, Rosa 97037, Glanna 98026, Fonti 98027, Umba 98036 og Þrasa 98052. Fæðist vel ættaðir kálfar undan eldri nautsfeðrum sem hafa verið í notkun eins og Teini 97001, Byl 97002, Stíg 97010, Brimli 97016, Randveri 97029 eða Kubbi 97030 geta þeir einnig komið til álita.

 

Þær kröfur sem gerðar eru til nautsmæðranna, eru að þær séu með 110 eða hærra í afurðaeinkunn og 90 eða hærra fyrir próteinhlutfall. Þá þurfa þær að hafa 16 eða hærra fyrir júgur og spena, 17 eða hærra fyrir mjaltir og 4 eða hærra fyrir skap. Ekki eru teknir kálfar undan hyrndum kúm. Nánar má sjá ferilinn á vali nauta í ræktunarstarfinu með því að smella hér.