Fleiri afurðafélög í niðurskurði
12.05.2016
Það virðist vera frekar regla en undantekning að afurðafélög víða um heim séu að loka vinnslulínum og hagræða. Þetta er svo sem ekki óeðlilegt ferli en umfangið nú um stundir er næstum sláandi. Við höfum margoft greint frá stöðunni í Evrópu en oftast berast þó fréttir af uppbyggingu utan Evrópu. Það er þó ekki alltaf svo enda hefur Saputo, stærsta afurðafélag Kanada, nú sent frá sér tilkynningu um að þar á bæ standi til að loka þremur vinnslustöðvum á árinu og með því fækka um 320 starfsmenn.
Félagið mun ekki draga úr framleiðslunni heldur aðallega færa til framleiðslu og auka sérhæfni og fer þannig sömu leið og flest önnur stór afurðafélög í heiminum. En svona breytingar eru ekki ódýrar og alls er talið að Saputo þurfi að kosta til 2,1 milljarði króna vegna launagreiðslna og annarra atriða sem lúta að breytingunum. Á móti kemur að stjórn félagsins metur það svo að sá kostnaður náist til baka með hagræðingaraðgerðum og árið 2019 verði náð núllpunkti vegna aðgerðanna þ.e. raunveruleg áhrif hagræðingarinnar sjáist fyrst árið 2020/SS.