Fjóshendur – komnar út !
06.08.2003
Á háslætti kom úr ljóðabókin Fjóshendur eftir Hálfdan Ármann Björnsson. Hálfdan gefur bókina út í tilefni af sjötugsafmæli sínu en hann hóf búskap á Hjarðarbóli í Aðaldal árið 1960 ásamt eiginkonu sinni og tengdaforeldrum. Sonur hans Sigurður og Brynja eiginkona hans standa nú fyrir búi á Hjarðarbóli en auk aðkomu Hálfdanar að búverkum sinnir hann ýmiskonar listsköpun.
Á Hjarðarbóli er fyrst og fremst sérlega myndarlegt kúabú en einnig ær, hross og kornrækt.
Það er ekki á hverjum degi sem kúabóndi gefur út glæsilega innbundna ljóðabók sem auk þess ber nafnið Fjóshendur. Kápu bókarinnar prýðir málverk Hálfdanar, væntanlega sjálfsmynd höfundar af bóndanum í bláa vinnugallanum með grænu derhúfuna að mjólka rauða kú. Þar er einnig eftirfarandi ljóð:
„Bundinn lögum ljóðaarfs
í leit að svari spurnar.
Undir kúm í erli starfs
orti ég Fjóshendurnar.“
Á baksíðu bókarinnar er m.a. eftirfarandi texti: „Kveðskapur sá er hér birtist, hefur aðallega orðið til á u.þ.b. 40 ára tímabili við hin daglegu störf, mest í fjósinu á Hjarðarbóli, hripaður niður á innvigtunarseðla mjólkurbílsins, fóðurblöndupoka eða annað sem til féll.“ Bókin er fáanleg hjá höfundi.