Beint í efni

Fjórir spenar – fjórir mjólkurtankar?

01.10.2010

Eins og kúabændur vita manna best eru gæði mjólkur afar ólík á milli júgurhluta, jafnvel hjá fullfrískum kúm. Munurinn á mjólkinni kemur m.a. fram í ystingareiginleikum hennar og nú hafa vísindamenn við sænska landbúnaðarháskólann unnið að framtíðarsýn með flokkun mjólkurinnar eftir júgurhlutum strax við mjaltir.

 

Linda Forsbäck, sem nýverið varði doktorsritgerð sína við skólann, vann að verkefninu en tilgangur þess var að meta

hvort hagkvæmt gæti verið að flokka mjólkina strax við mjaltir eftir júgurhlutum. Þetta er í raun tiltölulega einfalt þar sem mjaltaþjónar sjá um mjaltirnar, en þarfnast þó tæknilegrar útfærslu.

 

Niðurstaða Lindu var sú að þar sem nýtingarmöguleikar mjólkur geta verið afar breytilegir eftir júgurhlutum, þá ætti að vera forsvaranlegt að þróa tæknibúnað sem gerir bóndanum mögulegt að skipta mjólkinni upp strax við mjaltir í tvo megin flokka: „ostavinnslumjólk“  og „aðra mjólk“. Hvort þetta verður nokkurntímann raunin á tíminn einn eftir að leiða í ljós.