Beint í efni

Fjórðungi minna í matvæli!

13.08.2007

Í morgun gaf Hagstofa Íslands út vísitölu neysluverðs sem gildir fyrir ágústmánuð. Er hún 273,1 stig og hækkar um 0,1 stig frá fyrri mánuði, sem er 0,04% hækkun. Verðbólga undanfarna 12 mánuði er 3,4% en fyrir ári var verðbólgan 8,4%.

 

Athyglisvert er að skoða hlutdeild matar og drykkjar í vísitölu neysluverðs, og þar með heimilisútgjöldunum. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan fóru tæp 16% af útgjöldum heimilanna til kaupa á mat og drykk fyrir 5 árum, í dag fara rúm 12% í þennan flokk. Vægi hans hefur því minnkað um tæpan fjórðung á fimm árum.

Þessar upplýsingar má nálgast hér á vef Hagstofunnar. Tölurnar gilda fyrir ágústmánuð ár hvert. Þróun útgjalda til kaupa á kjöti, mjólk, ostum og eggjum má sjá hér, vægi þeirra hefur minnkað úr 5,8% í 4,8%. Samhliða hefur kjötneysla aukist og mjólkurneyslan breyst á þann veg að meira er neytt af unnum vörum, á kostnað minnst unnu vörunnar, drykkjarmjólkur.