Beint í efni

Fjórða hækkunin í röð

08.02.2013

Það var jákvætt hljóð í uppboðshöldurum á mjólkurvörum á markaðinum Global Dairy Trade í Nýja-Sjálandi í vikunni en hækkun varð á markaðinum og er það sú fjórða í röðinni!  Þetta eru vissulega afar góð tíðindi fyrir þá kúabændur og þau afurðafyrirtæki sem treysta á útflutning enda þröngt á markaði.
 
Í raun hefur mjólkurverð á hinum alþjóðlega markaði nú hækkað allt frá því síðasta sumar eða alls í níu skipti af 11 mörkuðum sem haldnir hafa verið. Verðhækkunin nú nam 2,4% frá fyrra verði en alls nam heildarsalan á þessum eina uppboðsdegi um 17,5 milljörðum króna. Nú er einungis spurningin hve það tekur langan tíma fyrir afurðafyrirtækin að ná að skila hækkuðu verði á heimsmarkaðinum til bænda, en skilaverðið í dag í Norður-Evrópu er um 60-65 krónur á lítrann/SS.