
Fjölþætt starfsemi fyrir ykkur
08.07.2017
Hagsmunamál kúabænda eiga sér marga snertifleti. Tíðarfar, það sem af er ári, hefur verið gott og margir bændur lagt grunninn að framleiðslu næsta vetrar og lokið fyrri slætti. Það ber að þakka, enda stendur orðatiltækið „ég er bóndi og á allt mitt undir sól og regni“ óhaggað, þrátt fyrir framþróun í tækni, byggingum, kynbótum og ræktun.
Nú er hálft ár liðið frá því að búvörusamningarnir tóku gildi og jafnt og þétt að byggjast upp reynsla meðal bænda og framkvæmdaaðila á virkni samninganna og reglugerðum þeim tengdum. Sem dæmi um það þá hefur þegar verið úthlutað fjárfestingastuðningi fyrir þetta ár og auglýst eftir umsækjendum um nýliðunarstuðning. Mikil ásókn í fjárfestingastuðning kom ekki á óvart, víða er unnið hörðum höndum að því að bæta framleiðsluaðstöðu á kúabúum. Framkvæmdir sem sótt var um styrk til námu 3,6 milljörðum króna. Það er því öllum ljóst að bændur horfa til framtíðar og byggja upp sín fyrirtæki til þess að efla og tryggja framleiðslugetu í landinu.
Á aðalfundi LK 24.-25. mars síðastliðinn voru samþykktar ályktanir um stefnumörkun í nautakjötsframleiðslu annars vegar og stefnumörkun í mjólkurframleiðslu hins vegar. Með haustinu verður komið á fót vinnuhópum sem taka þessi málefni til umfjöllunar og munu jafnframt eiga samtal við aðra hagsmunaaðila. Stefnumörkun af þessu tagi þarf og á að vera í sífelldri endurskoðun enda tekur hún, eðli málsins samkvæmt, mið af þeim aðstæðum sem greinin býr við á hverjum tíma. Árið 2019 verður kosið um hvort bændur vilja halda í greiðslumark mjólkur frá og með árinu 2021. Hlutverk vinnuhóps um stefnumörkun í mjókurframleiðslu verður m.a. að stilla upp þeim ólíku sviðsmyndum sem upp geta komið í kjölfar framangreindra kosninga. Stefnumörkun til ársins 2027 verður svo unnin út frá þeim. Það er von okkar í stjórn LK að samtal á þessum grunni byggi undir umræðu meðal kúabænda og geti mótað skýrari sýn á næstu framtíð.
Samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga var skipaður af Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í upphafi árs. Starfshópnum er ætlað að ljúka störfum fyrir lok árs 2018 og skila skýrslu eða greinargerð til ráðherra um niðurstöður sínar. Hópurinn hefur nú fundað 6 sinnum og hefur á þessum fundum verið farið yfir inntak búvörusamninganna ásamt því að ræða önnur málefni greinarinnar.
Hagsmunamál kúabænda eiga sér því marga snertifleti og LK hefur það hlutverk að sinna þeirri hagsmunagæslu. Eins og segir í samþykktum LK er tilgangur félagsins „að sameina þá, sem stunda nautgriparækt í atvinnuskyni um hagsmunamál sín og vinna að framgangi þeirra…“. Styrkur hagsmunagæslunnar liggur í því að allir taki þátt í félagsstarfinu og félagar hafi aðkomu að vettvangi þar sem hagsmunagæslan þarf að fara fram.
Lagaumhverfi landbúnaðarins er flókið og áherslur stjórnmálaflokka ekki alltaf hagfelldar framleiðslu á landbúnaðarafurðum hérlendis. Í umræðu um starfsumhverfi landbúnaðarins, bæði á pólitískum vettvangi og í stefnumörkun innan greinarinnar, er mikilvægt að missa ekki sjónar á samhengi hlutanna.
Elín Heiða Valsdóttir
Kúabóndi í Úthlíð og í stjórn LK