
Fjölmenni við opnun nýrrar Nautastöðvar BÍ
11.02.2009
Ný Nautastöð Bændasamtaka Íslands á Hesti í Borgarfirði var vígð 10. febrúar sl. að viðstöddum rúmlega 400 gestum. Stefán Ólafsson byggingarstjóri afhenti Haraldi Benediktssyni formanni Bændasamtakanna lyklana að stöðinni sem þakkaði öllum þeim sem komu að byggingarframkvæmdunum fyrir vel unnin störf. Að svo búnu fékk Sveinbjörn Eyjólfsson framkvæmdastjóri stöðvarinnar lyklavöldin en starfsskilyrði hans og aðbúnaður nauta verður nú með töluvert öðrum hætti en í gömlu stöðinni á Hvanneyri sem lýkur nú hlutverki sínu.
Sveinbjörn segir að nú gefist nautgriparæktinni mikil tækifæri að sækja fram. „Aðstaðan gjörbreytist til hins betra. Nú getum við verið með 24 naut í sæðistöku og aukinn fjöldi kálfa í uppeldi gefur ræktunarstarfinu mikið svigrúm. Það er yfirlýst markmið okkar að auka sæðingar í nautgriparæktinni og við höfum hvatt bændur óspart í þeim efnum og minnka að sama skapi notkun heimanauta,“ segir Sveinbjörn og bætir við að með því að hafa kálfauppeldi og nautastöðina á sama stað verði hægt að ná aukinni hagkvæmni í rekstrinum. Teknir eru á bilinu 120 til 170 þúsund skammtar úr nautum á stöðinni árlega og rúmlega 50 þúsund eru sendir til frjótækna. Sveinbjörn segir að með nýrri og bættri aðstöðu séu vinnuferlar eins og best verður á kosið og t.a.m. uppfylli stöðin kröfur Evrópusambandsins um útflutning á nautasæði.
Fjallað verður um nýju stöðina í máli og myndum í næsta Bændablaði.