Beint í efni

Fjölmargar ályktanir samþykktar á Búgreinaþingi

02.03.2023

Fjölmargar ályktanir voru samþykktar á Búgreinaþingi Bændasamtakanna dagana 22.-23. febrúar síðastliðinn. Hjá kúabændum voru 36 ályktanir samþykktar, 10 hjá skógarbændum, 3 hjá hrossabændum , 13 hjá garðyrkjubændum og hjá sauðfjárbændum um 33 tillögur. Hér neðar í skjalinu má sjá allar samþykktar tillögur deildanna sem tilbúnar eru.

Hjá nautgripabændum var endurskoðun búvörusamninga fyrirferðamikil á þinginu og snúa alls þrettán ályktanir beint að endurskoðun búvörusamninga sem fer fram í ár. Fagleg málefni nautgripabænda eru þó bændum einnig hugleikin og vilja bændur sjá að sæðingarkostnaður verði jafnaður um allt land og að kyngreining á nautgripsæði verði að veruleika. Jafnframt leggja bændur mikla áherslu á að endurskoðun á verðlagsgrundvelli kúabús verði lokið sem fyrst, en rekstur mjólkurbúa hefur farið versnandi undanfarin ár.

Hjá skógarbændum var meðal annars samþykkt að beint verði til Búnaðarþings og í framhaldinu til matvælaráðherra að unnið verði markvisst að því að tryggja til framtíðar eflingu nytjaskógræktar og skjólbeltaræktunar innan nýrrar stofnunar skógræktar og landgræðslu, Land og Skógur, ef af sameiningu stofnananna verður. Einnig er skorað á Búnaðarþing að samþykkja að hafnar verði viðræður við stjórnvöld um aukið fjármagn, í tengslum við búvörusamninga, til skjólbeltaræktunar til að styðja við aukna akuryrkju, grænmetisrækt og túnrækt ásamt því að lögð verði áhersla á að kolefnisbinding í nytjaskógi verði viðurkennd sem skógarafurð. 

Endurskoðun sauðfjársamnings var eitt af megin áherslumálum Búgreinaþings sauðfjárbænda. Fundurinn lagði m.a. fram áherslur um stöðvun á niðurtröppun greiðslumarks út samningstímann og að horfið verði frá því að leggja niður greiðslumark við lok gildandi sauðfjársamnings. Ályktanir fundarins taka á ýmsum málum. Meðal annars komu fram ályktanir um mikilvægi upprunamerkingar, örmerkjanotkun, riðumál og veggirðingar, svo fátt eitt sé nefnt.

Hjá garðyrkjubændum var send inn tillaga um að endurskoða þurfi tollaumhverfi garðyrkjunnar með tilliti til að tryggja rekstrarskilyrði innlendrar garðyrkjuframleiðslu. Einnig að fundnar verði lausnir á því hvernig er hægt að tryggja bændur í útirækt fyrir tjóni með tryggingavernd ásamt því að mótaðar verði tillögur um almennan stuðning við lífræna garðyrkjuframleiðslu með það að markmiði að auka nýliðun, aðlaga að lífrænum búskaparháttum og styrkja greinina til lengri tíma.

Hjá hrossabændum var því meðal annars beint til stjórnar að að halda áfram undirbúningi á breytingu á samþykktum deildarinnar varðandi skipan fagráðs í hrossarækt. Einnig var lagt til að stjórn hrossabænda skipi starfshóp til að fara yfir aðkomu kynbótahrossa á landsmótum ásamt því að útfærsla stjórnar um tilnefningu BÍ til hrossaræktarbús ársins verði háð því að lágmarki einn ræktandi sem stendur að hverju ræktunarbúi þurfi að vera fullgildur félagi í BÍ og er þá miðað við félagatal 1. maí ár hvert.