Fjöldi burða, sæðinga og horfur í framleiðslu
12.01.2016
Eins og fram kom í áramótapistli formanns LK, var innvigtun mjólkur sléttar 146 milljónir lítra á nýliðnu ári. Það er aukning um 12,5 milljónir lítra frá árinu á undan, þegar innvigtunin var 133,5 milljónir lítra, eða 9,4%. Það er kunnara en að frá þurfi að segja, að þetta er lang mesta mjólkurmagn sem vigtað hefur verið inn í íslensk samlög á einu ári frá upphafi vega. Fyrstu sex mánuði ársins 2015, var aukning innvigtunar tiltölulega hófleg; aukning á innvigtun einstakra vikna var 4-6% að jafnaði miðað við fyrra ár. Í viku 27 urðu síðan alger vatnaskil, er aukning vikuinnvigtunar varð 12% miðað við fyrra ár og hélst sú aukning á bilinu 12-14% svo að segja út árið 2015. Heildarniðurstaðan varð 9,4% aukning innvigtunar eins og áður segir.
Þegar litið er til þróunar í fjölda burða undanfarin ár, sem sjá má á myndinni hér að ofan (eitthvað af skýrslum sl. árs vantar ennþá), kemur á daginn að framan af ári fjölgaði burðum um 3-8% miðað við sömu mánuði árið á undan. Hlutfallslega varð þó lang mesta aukningin þegar kom fram á sumar; skráðir burðir í júní og júlí voru 14-15% fleiri en árið á undan. Grunnurinn að burðum sl. sumars var lagður með sæðingum haustið 2014, en á tímabilinu ágúst-október 2014 voru sæðingar 25-30% fleiri en á sama tíma árið 2013. Þróun í fjölda sæðinga eftir mánuðum má sjá á myndinni hér að neðan.
Þetta kemur mjög vel heim og saman við framleiðsluaukninguna sem varð þegar kom fram á síðari hluta ársins. Við það bætast áhrif verkfalls eftirlitsdýralækna, sem leiddi af sér að slátrun nautgripa lá nær algerlega niðri frá 20. apríl til 15. júní. Í venjulegu árferði hefði á að giska 1.000 kúm verið slátrað á því tímabili sem verkfallið náði yfir. Erfitt er að áætla hversu mikilli viðbót þessar kýr skiluðu til mjólkurframleiðslunnar á sl. ári, það er í öllu falli nokkur hundruð þúsund lítrar.
Burðum hefur síðan heldur farið fækkandi nú á síðustu mánuðum ársins eins og að framan greinir. Sama gildir um fjölda sæðinga, en í okt-des. 2015 voru þær um 3-7% færri en á sama tíma í fyrra. Væntanlega sést þess staður í framleiðslunni á komandi vikum og mánuðum. Á móti þessu vinnur síðan aukning meðalafurða hjá kúnum, en frá nóvember 2014 til nóvember 2015 jukust þær um 100 kg/árskú, skv. niðurstöðum skýrsluhalds nautgriparæktarinnar. Það er ca. 1,7% aukning. Sú þróun mun væntanlega halda áfram og skal því spáð hér að meðalafurðir yfir landið nái 6.000 kg markinu á næstu 12-18 mánuðum. Niðurstöður heyefnagreininga benda til þess að gæði heyfengs kúabænda frá sumrinu 2015 hafi verið mikil víðast hvar, að Norðaustur- og Austurlandi undanskildu. Meiri vafi leikur á um magnið, en margt bendir til að það sé í minna lagi, þó traust gögn um það skorti mjög.
Niðurstöður um kjötframleiðslu síðasta árs liggja ekki fyrir á þessari stundu en eru væntanlegar mjög bráðlega. Þá verður betur hægt að glöggva sig á þróun slátrunar á kúm undanfarnar vikur, en þar hefur verið umtalsverð aukning.
Það eru því margvíslegar vísbendingar í skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar sem benda til þess að framleiðsla mjólkur hafi náð hámarki. Þó ber að hafa þann fyrirvara varðandi þau gögn og ályktanir sem af þeim eru dregnar, að þær verða aldrei betri en gæði gagnanna gefa tilefni til./BHB