Beint í efni

Fjarstýrður kúasmali

06.12.2013

Að sækja kýr á beit er og hefur verið töluverður handleggur á mörgum búum, sér í lagi stórum kúabúum. Nú lítur út fyrir að störf smalanna muni léttar verulega en ástralskir vísindamenn hafa þróað fjarstýrt farartæki sem hægt er að nota til þess að smala kúnum með. Tæki þetta getur bæði ekið eftir túnum og á sama tíma ”horft” á kýrnar með þar til gerðum myndavélum.

 

Smali þessi er á fjórum hjólum og hafa tilraunir með hann gengið vel. Kýrnar læra fljótt að þekkja smalann og gegna honum. Það eru vísindamenn við háskólann í Sydney sem hafa þróað þetta tæki en hugmyndin er ekki eingöngu að létta vinnuna við smölun heldur einnig að nýta myndavélarnar til þess að greina sjálfkrafa mögulega sjúkdóma hjá kúnum sem hugsanlega valda því að kýrnar ganga ekki jafn hratt og taktfast og aðrar kýr.

 

Enn sem komið er, er smalanum handstýrt með fjarstýringu en vonir vísindamannanna er að geta gert hann alsjálfvirkan og því einfaldlega sent hann út á tún þegar sækja á kýr til mjalta. Þeir sem vilja skoða nánar þetta undratæki geta smellt hér en þá opnast myndband af smalanum á YouTube vefnum/SS.