Beint í efni

Fjármálaráðgjöf – skoðanakönnun á bondi.is

14.04.2008

Notendum bondi.is býðst nú að taka þátt í skoðanakönnun á vefnum. Í fyrstu skoðanakönnuninni er spurt hvort þörf sé á aukinni fjármálaráðgjöf til bænda. Hægt er að opna könnunina með því að smella hér.

Í kynningu frá ráðgjafarsviði BÍ segir: "Miklar breytingar hafa átt sér stað í íslenskum landbúnaði á undangengnum áratug og búin hafa stækkað og þeim fækkað. Þessu hafa fylgt umtalsverðar fjárfestingar hjá bændum. Undanfarin misseri hafa rekstrarskilyrði hins vegar breyst mjög á verri veg. Bændur hafa ekki farið varhluta af versnandi kjörum á lánsfé. Fjármagnskostnaður hefur vaxið sem hlutfall af rekstarkostnaði búanna og er nú svo komið að þessi liður er stærsti einstaki kostnaðarliður kúabúanna, samkvæmt Hagþjónustu landbúnaðarins. Miklar hækkanir á aðföngum hafa orðið á erlendum mörkuðum á undanförnum mánuðum og sérstaklega á áburði og kjarnfóðri. Til að bæta gráu ofan á svart hefur gengi krónunnar fallið mikið með tilheyrandi hækkun innfluttra aðfanga sem síðan leiðir til almennra verðhækkana. Samanlögð áhrif alls þessa á rekstur búanna eru afar neikvæð."

Bændasamtök Íslands vilja bregðast við þessum aðstæðum og reyna að aðstoða bændur með leiðbeiningum og ráðgjöf. Í því sambandi hefur vaknað sú hugmynd að Bændasamtökin bjóði bændum í erfiðri rekstarstöðu sérstaka ráðgjöf sem miðar að því að hjálpa þeim að takast á við þann vanda sem að þeim steðjar til skemmri tíma. Fyrirmyndin að slíkri þjónustu er ekki síst sótt til Ráðgjafarstofu í fjármálum heimilanna. Ljóst er að slík þjónusta er ekki ódýr. Því hefur verið ákveðið að bjóða bændum upp á að segja hug sinn til hugmyndarinnar á vef Bændasamtakanna. Í framhaldinu verður metið hvort raunhæft sé að bjóða upp á þjónustuna. Könnunin verður aðgengileg á vef Bændasamtakanna, www.bondi.is frá 14. til 23. apríl og má nálgast hana með því að smella hér.