Beint í efni

Fjármagnskostnaður að sliga búrekstur segir formaður BÍ

24.06.2008

Í nýju Bændablaði kennir ýmissa grasa að venju en Haraldur Benediktsson formaður BÍ ritar leiðara um erfiða rekstrarstöðu bænda og aðgerðir Bændasamtakanna í þeim efnum. Einnig víkur hann að stöðu WTO-viðræðna og landbúnaði á alþjóðavísu. Blaðið má nálgast í heild sinni á pdf-formi með því að smella hér en leiðarinn er birtur hér á eftir:

Bjartur árstími – en dökkt útlit
Á þessum árstíma er birtan allsráðandi eins og tilheyrir. Fyrri slætti jafnvel að ljúka víða sem er venju fremur snemmt þótt aðstæður séu mismunandi á hverjum stað. Góð heyskapartíð og góð hey eru bændum dýrmæt. Fátt hefur meiri áhrif á afkomu þeirra búa sem byggja á grasnyt. En þó víða líti vel út með heyfeng, harðnar enn á í ytri starfsskilyrðum búanna.

Ekkert lát er á verðhækkunum á aðföngum bænda. Nú síðast eru það flóð í Bandaríkjunum sem hafa á nokkrum dögum hækkað kornverð gríðarlega. Ekkert lát er á verðhækkun á eldsneyti. Þar sem bændur þurfa alla jafna að sækja vöru og þjónustu um langan veg þá hefur eldneytisverðið mikil áhrif. Bændur eiga þess ekki kost að spara með því að nota almenningssamgöngutæki.

Vegna þessara hækkana brugðu Bændasamtökin á það ráð fyrir nokkru að bjóða bændum upp á sérstaka ráðgjöf í fjármálum. Eftirspurn hefur verið nokkur og ljóst að margir bændur eiga í verulegum erfiðleikum. Það sem er sárast er að áætlanir bænda um tekjur, afurðir og almennan rekstur standast oftast vel, þrátt fyrir allt, en liðurinn fjármagnskostnaður er að sliga búrekstur. Ekki verður annað séð en að mörg bú þurfi á aðstoð að halda við að komast áfram. Þetta er sorglegt því þarna eru oft um að ræða best uppbyggðu búin okkar og framleiðslueiningar framtíðarinnar. Að þessu leyti á búrekstur þó í sama vanda og annar atvinnurekstur um þessar mundir. Reyndar má um allan landbúnað segja að þær ytri aðstæður sem breyst hafa undanfarið eru til þess fallnar að hafa beyg af.

Líkur eru á hækkun útflutningsskyldu lambakjöts á þessu hausti. Það stafar ekki síst af því að reynt verður að halda birgðastöðu í lágmarki haustið 2009 þegar útflutningsskyldan fellur niður. Undanfarin ár hafa aðgerðir til fækkunar sláturhúsa skilað bættri afkomu sláturleyfishafa. Sem betur fer búum við að því að hafa ráðist í hagræðingaraðgerðir og fækkun sláturhúsa. Sláturhúsin hafa haft tíma og aðstæður til að efla og bæta sinn rekstur sem þau hafa mörg gert af myndarskap þannig að meira rými er nú fyrir sláturleyfishafa til að mæta óskum bænda um hærra afurðaverð. Nokkur von ætti að vera um hærra verð fyrir útflutt lambakjöt vegna gengisþróunar og verðhækkana erlendis. Við ríkjandi aðstæður er nauðsynlegt að ganga eins langt í hækkunum á verði til bænda og mögulegt er. Takist það ekki er búgreinin í vanda stödd.

Misvísandi stefnur
Sagt var frá því í síðasta Bændablaði hver staða WTO viðræðna væri og hverjar væru líkur á að breytingar þyrfti að gera hér á landi. Nú er það svo að í samningum um mjólkurframleiðslu og starfsskilyrði sauðfjárræktar, sem nú er unnið eftir, er að finna ráðstafanir til að mæta breyttu umhverfi. Bændur hafa því búist við breytingum í langan tíma. Það er hins vega áleitin spurning hvort það ferli þurfi ekki að taka til endurskoðunar vegna þess dráttar sem orðinn er á því að samkomulag náist?

En hitt er víst að eftir því sem niðurstaða dregst er óvissan meiri. Alþjóðasamtök bænda (IFAP) funduðu í Póllandi í upphafi mánaðarins. Í stuttu máli er hægt að segja að umræðan á þeim vettvangi er í allt öðrum takti en innan WTO. Þar ræða bændur um vandann við að ekki takist að framleiða matinn og hve mikið verð á aðföngum hækkar og þar af leiðandi maturinn. Segja má að hyldýpisgjá sé á milli funda eins og IFAP og fundar SÞ í Róm og þess sem aðhafst er innan WTO. Stjórnmálamenn sem sækja slíka fundi geta ekki skipt um möppur og skoðanir á milli funda. Þeir þurfa að hafa í huga gjörbreytta heimsmynd. Hún er sannarlega máluð öðrum litum en þeim sem voru ríkjandi við upphaf WTO-viðræðna.

Þjóðir huga að landbúnaði sínum nú með nýjum hætti. Ríkisstjórnir víða um heim hafa gripið til ýmissa ráðstafana til að halda matvælum innan landamæra sinna og styðja við bakið á bændum í þeim erfiðleikum sem uppi eru og raktir hafa verið hér að ofan. Nýjasta dæmið er eldsneytisstyrkur ríkisstjórnar Frakklands til bænda sem sýnir að iðnríkin hafa ekki síður áhyggjur af matvælaöryggi sínu en þróunarríkin. Vonandi berast þessi viðhorf inn í fundarsali WTO fyrr en síðar. /HB