Beint í efni

Fjárhagsstaða nýsjálenskra bænda

14.11.2013

Það er marks um mikil umsvif nýsjálenskra bænda í þjóðarbúskapnum þar syðra, að seðlabanki landsins telur ástæðu til að verja nokkrum hluta af nýútkominni skýrslu sinni um fjármálastöðugleika í umfjöllun um greinina. Um mitt þetta ár voru heildarskuldir bænda um 50 milljarðar nýsjálenskra dollara (um 5.000 milljarðar ISK). Þar af voru skuldir mjólkurframleiðenda 32 milljarðar, eða 64% af heildinni. Það er þreföldun frá því fyrir áratug. Hátt mjólkurverð undanfarin ár hefur leitt af sér miklar fjárfestingar í framleiðsluaðstöðu og tilsvarandi framleiðsluaukningu, auk verulegar hækkunar á landverði. Að mati bankans er greinin viðkvæm fyrir lækkun á afurðaverði, vegna minni tekna og lakari veðstöðu, eða hækkandi vaxta.

 

Á yfirstandandi framleiðsluári eru horfur á metverði á mjólk til bænda, 8,62 NZD pr. kg verðefna á móti 6,16 dollurum pr. kg verðefna á síðasta ári. Vonast bankinn til þess að bændur nýti það í auknum mæli til að greiða niður skuldir og bæta fjárhagsstöðu sína. Þó sé hætta á því að hluti bænda auki á skuldsetningu sína í von um að afurðaverðið haldist hátt um lengri tíma. Slíkar ákvarðanir hafi síðan áhrif til enn meiri hækkunar á landverði sem geti hvatt til enn meiri lántöku. Slíkt auki á áhættu greinarinnar og geti leitt af sér ósjálfbæra skuldastöðu hjá hluta búanna ef rekstrarumhverfið versnar. 

 

Miklir þurrkar geisuðu í landinu á síðasta framleiðsluári og hefur það haft neikvæð áhrif á fjárhagsstöðu margra bænda. Jafnframt hefur útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða dregist saman, þar sem hækkandi verð hefur ekki náð að vega upp á móti samdrætti í magni. Þá leiddi þurrkurinn til talsvert meiri slátrunar gripa, bæði nautgripa og sauðfjár en ráð var fyrir gert. Það, ásamt minni ásetningi, mun hafa áhrif á gripafjöldann næstu ár hjá bændum í þeim greinum. Því er búist við að nýsjálenskir kjötframleiðendur eigi heldur erfiða tíma framundan í fjármálunum.

 

Það sem af er þessu framleiðsluári hefur veðurfarið verið nýsjálenskum mjólkurframleiðendum hagfellt og framleiðslan farið mjög vel af stað. Hátt verð ýtir enn frekar undir aukna framleiðslu, þannig að bankinn telur líklegt að mjólkurverðið lækki þegar kemur fram á árið 2014./BHB

 

Skýrsla nýsjálenska seðlabankans um fjármálastöðugleika, nóvember 2013

 

Þróun heildarskulda nýsjálenskra bænda 2003-2013
Skuldastaða nýsjálenskra bænda. Skuldir sem hlutfall af útflutningstekjum, 1991-2013.