Beint í efni

Fjárfesta fyrir hundruði milljarða í Kína

08.09.2012

Kínverska afurðafélagið Mengniu, sem er að litlum hluta í eigu norður-evrópska afurðafélagsins Arla, hefur nú hafið stórsókn á sínum heimamarkaði sem svar við stöðugt vaxandi innflutningi mjólkurvara til landsins. Þannig tók félagið nýverið í notkun tvær afurðastöðvar í Hebei héraði en þessum afurðastöðvum er ætlað að afsetja mjólkurvörur sínar í Beijing, Tianjin og á svæðum í norðurhluta Kína. Alls nam fjárfestingin hjá Mengniu í þessari lotu 48 milljörðum króna en þetta er einungis upphafið af risavöxnu verkefni.

 

Með dyggum stuðningi kínverskra stjórnvalda ætlar Mengniu að byggja 8-12 afurðastöðvar í viðbót á næstu árum, en þessi uppbygging mun kosta mörg hundruð milljarða króna. Yfirlýst markmið Mengniu er að ná 100% stjórn á mjólkursölunni í landinu!

 

Ástæða stuðnings kínverskra stjórnvalda við verkefnið er bæði sú stefna þeirra að verða sem mest óháði innflutningi, en jafnframt að aðstoða kínverskar afurðastöðvar að endurvekja traust neytenda á kínverskum mjólkurvörum. Sem kunnugt er hrundi heimamarkaðurinn þegar í ljós kom fyrir nokkrum árum að melanin hafði verið blandað í nokkrar mjólkurvörur.

 

Þessi nýja áætlun setur vafalítið strik í reikninginn hjá mörgum afurðafélögum í heiminum, sem stefna leynt og ljóst að því að afsetja mjólkurafurðir á hinum kínverska markaði í framtíðinni. Ef fram fer sem horfir lítur því út fyrir að forsvarsmenn Arla hafi veðjað á réttan hest þegar þeir gengu frá samningi um kaup á hlutafé í Mengniu fyrr á árinu/SS.