Beint í efni

Fjallið tók jóðsótt og fæddist pínulítil mús

20.03.2009

Sem kunnugt er lækkaði Seðlabanki lýðveldisins stýrivexti í gær. Um 1%, úr 18% í 17%. Málsmetandi aðilar í samfélaginu hafa lýst miklum vonbrigðum með þessa ákvörðun bankans og deilir Landssamband kúabænda þeim vonbrigðum. Kúabændur hefðu viljað sjá miklu meiri vaxtalækkun, þar sem vandséð er önnur aðgerð sem kæmi rekstri búanna betur um þessar mundir en myndarleg vaxtalækkun.  

Velta má fyrir sér hvort hið yfirgengilega vaxtastig sem ríkt hefur hér á landi undanfarna mánuði sé ekki orðinn verðbólguvaldur í sjálfu sér, þó hlutverk þess sé hið gagnstæða. Tvær ástæður má nefna í því samhengi. Í fyrsta lagi er ljóst að hátt vaxtastig gerir það að verkum að fjármagnskostnaður fyrirtækjanna í landinu verður tröllaukinn. Merkilegt má telja ef þau reyna ekki að koma þeim kostnaði út í verðlag. Í öðru lagi er leyft að flytja vexti af sk. jöklabréfum úr landi. Þeir fjármagnsflutningar hafa sett þrýsting á gengið undanfarna daga, eins og fram hefur komið í fréttum. Má það ekki veikjast mikið meira til að vera komið í sömu eymdarstöðuna og það var í um áramót. Ekki þarf að fjölyrði um áhrif þess á verðbólgu. Að auki sópa þessir okurvextir burt störfum í stórum stíl. Vonandi verður tekin róttækari ákvörðun í vaxtamálum þann 8. apríl n.k.