Beint í efni

Fiskimjölsverð yfir 100 kr/kg

03.07.2006

Á vef Fiskifrétta var nýlega greint frá því að verð á fiskimjöli til fóðurgerðar hefði farið yfir 100.000 kr fyrir tonnið, nánar tiltekið 1.450 $ sem á gengi dagsins í dag eru ríflega 109.000 kr. Ástæður hækkananna eru sagðar vera að uppsjávarafli hefur dregist saman um fimmtung, á sama tíma sem rekstrarkostnaður útgerðar í heiminum hefur hækkað verulega.

Þá er gríðarleg eftirspurn eftir mjöli til fóðurframleiðslu og til marks um það má nefna að í Noregi jókst sala á fiskafóðri um rúmlega 12% á sl. ári, fór úr 807 þúsund tonnum í 906 þúsund tonn. Það eru þó smámunir miðað við hratt vaxandi fóðurþörf í löndum á borð við Kína og fleiri lönd í Asíu og Suður-Ameríku. Sú spurning fer að verða áleitin, hvort réttlætanlegt sé að nota fiskimjöl í skepnufóður, þegar verðið er orðið svona gríðarlega hátt. Fiskimjöl er mjög góður próteingjafi, en þegar verðið á því er komið langt upp fyrir heildar mjólkurverðið, hlýtur að þurfa að leita fanga annars staðar.