
Fimm ástæður þess að kýr hafa það betra en háskólanemar!
20.10.2017
Nýverið birtist afar skondin grein í á bandarísku vefsíðunni www.drink-milk.com en það er heimasíða sem tileinkuð er allskonar fróðleik um mjólk. Greinina skondnu skrifaði hún Brianna Gwirtz og má skoða hana í heild sinni með því að smella á hlekk hér neðst í fréttinni. Brianna þessi, sem var í verknámi hjá heimasíðunni, ákvað að bera saman líf nútíma mjólkurkúa og háskólanema eins og hennar sjálfrar og komst að því að kýr hafa það miklu betra:
1. Kýr hvílast betur
Flestir nemendur þekkja það að vaka á nóttunni og sofa lítið til þess að fá námið til að ganga upp. Á sama tíma hvílast kýr hinsvegar afar vel og nota 12-14 tíma á dag í það að hvíla sig!
2. Kýr hafa betri legusvæði
Heimavistir eða nemendagarðar í Bandaríkjunum eru ekki beint þekktir fyrir góð rúm en kýrnar fá hins vegar mjúka og hreina legubása að liggja í. Oft eru legubásarnir með mjúkum gúmmíkurlsmottum undir þurrum undirburðinum, með sandi eða jafnvel með vatnsfylltum dýnum!
3. Næringarsérfræðingar sjá um kýrnar
Það er varla til sú kýr sem ekki fær fóður sem byggir á fóðuráætlun og skýru skipulagi en það er af og frá að næringin sem námsfólk fær sér oftar en ekki sé úthugsað og sérstaklega skipulagt!
4. Kýr fá reglulega snyrtingu á klaufum
Líklega njóta fæstir námsmenn þeirrar þjónustu að fá sérfræðing til þess að sjá um neglurnar en það er frekar reglan en undantekningin að kýrnar fái slíka þjónustu!
5. Kýrnar þurfa ekki að hafa áhyggjur af sóðaskap
Allir sem hafa búið á heimavist eða í nemendagarði sakna þess að fá ekki mömmu til að hjálpa við tiltekina á sunnudagsmorgni. Námsmennirnir vita það að sóðaskapurinn sem þeir sjálfir valda fer ekki af sjálfum sér en kýrnar þurfa nákvæmlega ekkert að spá í sóðaskapinn sem þær sjálfar valda. Bóndinn eða sköfuróbótinn sér um að halda umhverfinu hreinu og fínu fyrir kýrnar!
Ef þú vilt sjá upphaflegu greinina hennar Brianna þá er hægt að lesa hana með því að smella hér/SS.