Beint í efni

Feykir 24+ einn af 10 bestu ostum í heimi

25.03.2022

Feykir 24+ vakti mikla athygli í Heimsmeistarakeppni osta sem fram fór í Wisconsin í Bandaríkjunum nú á dögunum, enda í fyrsta sinn sem íslenskur ostur er meðal keppenda um heimsmeistaratitilinn.

Keppnin, sem um ræðir, er stærsta keppni sinnar tegundar í heiminum og er hún haldin ár hvert. Að þessu sinni voru sendir inn 2.978 ostar frá 29 löndum og 33 fylkjum innan Bandaríkjanna svo árangur Feykis 24+ er stórmerkilegur. Í dómnefnd sitja ostameistarar, mjólkurfræðingar, fulltrúar stærstu verslanakeðjanna, fulltrúar neytenda og aðrir fagaðilar og telur hún um 60 manns.

Jón Þór Jósepsson, framleiðslustjóri hjá Kaupfélagi Skagfirðinga á Sauðárkróki, ásamt framúrskarandi góðu starfshóp þar er fólkið á bakvið Goðdala ostana og er óhætt að segja að Feykir 24+ sé flaggskipið í hópi sælkeraostanna sem koma frá Kaupfélagi Skagfirðinga á Sauðárkróki. Mikil natni er lögð í framleiðslu á Feyki 24+ og tekur allt ferlið meira en 24 mánuði en það er tíminn sem hann þarf til að ná sínum einstöku eiginleikum í áferð og bragði. Heimsmeistaratitillinn í ár fór til Mountain Dairy Fritzenhaus fyrir svissneskan Gruyére en í flokknum sem Feykir 24+ keppti í sigraði hollenskur Roemer Sweet frá Van der Heiden Kaas B.V.

Deild Nautgripabænda óskar Jóni Þór og KS á Sauðárkróki innilega til hamingju með árangurinn. 

Mynd með frétt: World Championship Cheese Contest