Beint í efni

Fésbókarsíða stuðlaði að vöruþróun hjá MS!

31.01.2011

Stoðmjólk er járnbætt mjólk ætluð börnum frá 6 mánaða aldri og nota foreldrar og aðstandendur barna um allt land Stoðmjólk mikið. Oftar en ekki er fólk með börnin og Stoðmjólkina á ferðalögum og þótti upphaflega fernan ekki nógu heppileg við þær aðstæður. Nokkrir foreldrar stofnuðu því Fésbókarsíðu um Stoðmjólkina og forgangskrafan voru tilmæli til Mjólkursamsölunnar að framleiða Stoðmjólk í fernum með skrúfuðum tappa. Um það bil 900 manns skráðu sig á Fésbók til að styðja tillöguna og MS tók þessari áskorun afar vel.

 

Að sögn Björns S. Gunnarssonar, vöruþróunarstjóra MS, hafði

í reyndar nokkurn tíma staðið til að setja tappa á Stoðmjólk enda oft borist símtöl og tölvuskeyti frá foreldrum þess efnis. „Fésbókarsíðan og áskoranir á henni urði til þess að við ákváðum að flýta þessari breytingu verulega og má því segja að Fésbók hafi hjálpað beint við vöruþróun hjá okkur“.

 

Um miðjan þennan mánuð komu svo Stoðmjólkurfernur á markað með skrúfuðum tappa. Í framhaldi hafa margir skilið eftir vinsamlegar athugasemdir á Fésbókarsíðunni og sett inn hið heimsfræga merki „þetta líkar mér“ eða „like“. Þessi framvinda er skemmtileg lýsing á því hvernig neytendur geta komið að vöruþróun matvælafyrirtækja og haft árangur sem erfiði.

 

Stoðmjólk kom á markað hjá MS árið 2003 og er járn- og vítamínbætt mjólk sem er sérsniðin í innihaldi fyrir börn frá sex mánaða aldri, líkt og þurrmjólkurblöndur sem eru á markaði, en hefur þá sérstöðu að vera tilbúin til drykkjar.

 

Stoðmjólk hefur góð áhrif!

Nýlegar rannsóknir á járnbúskap 12 mánaða barna á vegum rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala háskólasjúkrahús sýna að járnbúskapur hefur stórlagast frá fyrri rannsókn sem gerð var á síðasta áratug síðustu aldar. Ástæður þessara breytinga eru taldar fyrst og fremst vegna nýrra ungbarnaráðlegginga og neyslu Stoðmjólkur sem hefur að verulegu leyti komið í stað venjulegrar kúamjólkur í fæði ungbarna.

 

Stoðmjólkin var þróuð af MS að beiðni og í samvinnu við samstarfshóp um næringu ungbarna á vegum Manneldis­ráðs (nú Lýðheilsustöð), Land­læknisembættisins, barna­­lækna við Landspítala-háskóla­sjúkrahús, félags barna­­­hjúkrunar­fræð­inga og félags heilsugæslu­hjúkrunar­fræðinga. Í starfs­hópnum sátu full­trúar ofangreindra aðila og sérfræðingar frá Miðstöð heilsuverndar barna og rannsóknarstofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahús auk þess sem málið fékk stuðning barnalækna í ung-og smábarnavernd.

 

Áhugasamir um Fésbókarsíðuna sem hafði þessi góðu áhrif geta skoðað hana með því að smella hér.