Beint í efni

Ferðaþjónusta bænda hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands

16.05.2011

Ferðaþjónusta bænda hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2011. Verðlaunin voru afhent á Bessastöðum við hátíðlega athöfn þar sem fjöldi ferðaþjónustubænda mætti til móttöku í boði Ólafs Ragnars Grímssonar og Dorritar Moussaieff. Við sama tilefni var Kristni Sigmundssyni óperusöngvara veitt heiðursviðurkenning fyrir það að hafa í starfi sínu borið hróður Íslands víða um heim.

Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda hf., tók á móti verðlaununum fyrir hönd fyrirtækisins en þau eru glerlistaverk eftir myndlistarkonuna Ingu Elínu. Hann þakkaði fyrir verðlaunin sem hann sagði mikinn heiður og gaf það loforð að Ferðaþjónusta bænda myndi halda áfram öflugum og umfram allt heiðarlegum rekstri á komandi árum. Sævar þakkaði árangur fyrirtækisins þeim bændum sem stæðu á bakvið félagið og ekki síst því starfsfólki sem starfaði á skrifstofu fyrirtækisins í Reykjavík.

Í máli formanns úthlutunarnefndar, Friðriks Pálssonar, kom fram að Ferðaþjónusta bænda hlyti verðlaunin fyrir þá forystu sem fyrirtækið hefur sýnt í þróun ferðaþjónustu í hinum dreifðu byggðum landsins, fyrir afburða árangur í sölu- og markaðsmálum og fyrir þá framsýni sem fyrirtækið hefur sýnt í að innleiða sjónarmið sjálfbærrar þróunar í starfsemi sinni. Hann sagði að Ferðaþjónusta bænda væri góður fulltrúi fyrir þann fjölda fyrirtækja sem laða að erlenda gesti til landsins.

Útflutningsverðlaun forseta Íslands eru veitt í viðurkenningarskyni fyrir markvert framlag til eflingar útflutningsverslun og gjaldeyrisöflun íslensku þjóðarinnar. Í úthlutunarreglum er kveðið á um að þau skuli veitt fyrirtækjum eða einstaklingum fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum eða þjónustu á erlenda markaði. Þau taka mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild hans í heildarsölu og markaðssetningu á nýjum markaði ásamt fleiru. Útflutningsverðlaunin voru fyrst veitt árið 1989 Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna en meðal annarra fyrirtækja sem hafa hlotið þau eru Lýsi, Bláa lónið, Samherji, Guðmundur Jónasson, Össur, Kaupþing, Baugur, Atlanta, Flugleiðir, Marel og hugbúnaðarfyrirtækið CCP.

Myndir frá Bessastöðum eru aðgengilegar í myndasafni Bændablaðsins.

Viðtal við Sævar Skaptason framkvæmdastjóra FB og Friðrik Pálsson formann úthlutunarnefndar í Kastljósinu 16. maí - horfa.

Ferðaþjónusta bænda hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2011