Fendt = Massey Ferguson = Laverda = Challanger?
10.11.2010
Agco, fyrirtækjasamsteypan sem á m.a. Fendt og Massey Ferguson, hefur nú eignast að fullu ítalska kornþreskivélamerkið Laverda sem Agco átti fyrir 50% í. Verksmiðjur Laverda eru í dag staðsettar í Norður-Ítalíu, nánar tiltekið í Breganze og þar hafa þreskivélar Agco reyndar verið framleiddar síðan 2004. Aukið eignarhald fyrirtækisins á Laverda var talið eðlilegt framhald af stóraukinni framleiðslu Laverda fyrir Agco.
Að sögn talsmanna Agco er ástæðan fyrir fullri yfirtöku á Laverda einnig sú að aukin samkeppni á þreskivélamarkaðinum hefur leitt til þess að setja þarf aukið fjármagn í þróunarstarf á tækjabúnaði og
Agco vill leiða þá þróun í Evrópu.
Eftir yfirtökuna á Laverda breytist lítið gagnvart bændum sem
kaupa vélarnar og eftir sem áður verða þreskivélar frá Fendt, Massey Ferguson, Laverda og Challenger seldar í sitt hvoru lagi þrátt fyrir að vera framleiddar af sömu höndum og í sömu suðuvélmennunum í verksmiðju Laverda! Þess má þó geta að auðvitað verður áfram munur á útliti og útfærslum vélanna, þó svo að þær séu allar framleiddar á sama stað, enda er það talið hagkvæmt í markaðslegum tilgangi.
Í verksmiðjunni starfa 450 manns sem eru reynsluboltar í framleiðslu þreskivéla, en framleiðsla hefur verið í verksmiðjunni í meira en 50 ár. Núverandi verksmiðja Laverda í Breganze var opnuð fyrir 22 árum síðan og er á nettri iðnaðarlóð fyrirtækisins sem er 22 hektarar að stærð!