Beint í efni

Félagsmálin og framtíðin

09.12.2017

Nú þegar minn tími sem starfsmaður ykkar kúabænda fer að líða undir lok, þá kemur mér í hug að pára nokkur orð um félagskerfi bænda. Ástæðan fyrir því er sú að félagskerfið er líklega sá hlutur í starfsumhverfi kúabænda, sem ég hafði hvað minnsta innsýn í áður en ég hóf störf fyrir Landssamband kúabænda í ágústmánuði, og á þessum tíma hefur verið hvað mesta reynslan að kynnast.

Eins og áður hefur verið nefnt þá urðu miklar breytingar á kerfinu um síðustu áramót, og á öllu þessu ári hefur verið skeggrætt um framtíð þess og þróun. Sem er eðlilegt, breytingar gefa oft tækifæri til að skoða málin ofan í kjölinn og spyrja spurninga sem hefur kannski ekki verið þörf á að spyrja í einhvern tíma.

En það sem hefur líka hreyft við þeim sem starfa í félagskerfi bænda, og öllum þeim sem láta sig það varða, er dræm þátttaka bænda í að skrá sig í þau samtök sem fara með þeirra málefni. Þátttakan hefur að sjálfsögðu áhrif á tekjustofna félaga, sem verða þá töluvert rýrari en væntingar stóðu til sem síðan einfaldlega veldur því að það verður þörf á því að endurhugsa hlutina. Áður en lengra er haldið tel ég samt réttast að nefna að enn ber töluvert á því að bændur telja sig vera skráða í Landssamband kúabænda, einfaldlega af því að þeir voru það alltaf hér áður fyrr, en hafa ekki áttað sig á kerfisbreytingunni sem varð um síðustu áramót.

Það getur verið freistandi að halda það að þessi dræma þáttaka og lækkun tekjustofna séu þá jákvætt hreyfiafl sem ýtir við breytingum, sem voru kannski orðnar fyrir löngu tímabærar. Þar verður undirritaður þó að vera ósammála því kerfisbreytingin sem slík, þ.e. að hagsmunasamtök bænda hafa orðið að frjálsum félagasamtökum, hefur einfaldlega það í för með að þessir aðilar setjast niður og skoða hvernig best sé að haga málum til framtíðar.

Það er mikilvægt að allar þær breytingar og þróanir sem munu eiga sér stað, verði gerðar í nafni sem flestra. Sem dæmi um þáttöku á meðal nautgripabænda, þá eru u.þ.b. 60% allra mjólkurinnleggjenda nú skráðir í Landssamband kúabænda. Það er auðvitað ekki meiningin að draga úr því að þessi fjöldi er afl sem getur látið að sér kveða, því það er nú einu sinni svo að nautgripabændur eru öflug stoð í sveitum landsins, og afurðarstöðvar þeirra eru mikilvæg fyrirtæki í þéttbýli.

Það væri nær að kalla það hvimleitt, að þau 40% sem nú standa fyrir utan sín hagsmunasamtök, muni ekki eiga þess kost á að hafa sitt að segja um þá þróun sem framundan er. Í gegnum áratugina hafa bændur nefnilega borið þá gæfu að koma sínum málum á framfæri með samstöðu og í samvinnu, þar sem smáir og stórir aðilar hafa borið tillit hvor til annars og fundið sameiginlega hag til að berjast fyrir.

Fyrir nokkrum dögum var haldin ráðstefna í Bændahöllinni undir yfirskriftinni „Leiðir til að auka kolefnisbindingu“, og voru það BÍ, LBHÍ, Landgræðslan og Skógræktin sem að henni stóðu. Fyrir nokkrum misserum tóku Landssamtök sauðfjárbænda af skarið, létu gera skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda í sauðfjárrækt og hafa farið af stað með vinnu til að kolefnisjafna sína framleiðslu. Landssamband kúabænda hefur fullan hug á að grípa þetta frumkvæði sauðfjárbænda á lofti og vinna að því að gera slíkt hið sama fyrir framleiðslu sinna félagsmanna.

Eins og oft vill verða með orð sem verða fyrirferðarmikil í umræðunni, þá er auðvitað alltaf hætta á því að kolefnisjöfnun fljúgi hátt um tíma, en falli svo til jarðar. En ef farið er af stað með þann raunveruleika í farteskinu, að þetta sé ekki töfralausn frekar en nokkuð annað, geta þær aðgerðir sem sauðfjárbændur stefna að (og vonandi sem flestar búgreinar taki upp) verið öflugt fyrsta skref í afar langri vegferð.

Íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, og hluti af því samkomulagi felur í sér kolefnisbindingu. Það virðist vera ansi sterkt í eðli mannsins, að það sé auðveldara að bæta við heldur en að draga úr. Það gerir kolefnisbindingu (kolefnisjöfnun) töluvert þægilegra fyrsta skref fyrir samfélagið, borið saman við að draga úr losun. Þar eru bændur, sem vörslumenn landsins, í lykilstöðu og geta sýnt mikið frumkvæði með því að móta raunverulegar aðgerðir, og verið til fyrirmyndar fyrir aðrar atvinnugreinar í þessum efnum.

Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla, árs og friðar.

Axel Kárason, settur framkvæmdastjóri LK