Beint í efni

“Félagslegur þrýstingur”

11.07.2007

Í þættinum „Í bítið“ á Bylgjunni síðastliðinn föstudag var viðtal við Ólaf M. Magnússon, framkvæmdastjóra Mjólku ehf. Í viðtalinu fór Ólafur mjög hörðum orðum um starfsmann Landssambands kúabænda, sem hann kvað hafa beitt sér gegn fyrirtækinu og beitt innleggjendur hjá Mjólku „félagslegum þrýstingi“ eins og hann orðaði það. Væri til fundargerðir því til staðfestingar. Einnig líkir Ólafur staðsetningu skrifstofu LK við það að Verslunarmannafélag Reykjavíkur „væri með skrifstofu hjá Hagkaup“. Framkvæmdastjóra LK var gefið færi á að svara þessum ummælum Ólafs M. Magnússonar í sama þætti sem sendur var út í gærmorgun.

Þessi ummæli Ólafs um að starfsmaður LK hafi beitt sér gegn Mjólku og beitt innleggjendur þar einhverjum félagslegum þrýstingi eru gersamlega fráleit. Það eina sem framkvæmdastjóri LK hefur haft að segja um Mjólku ehf á fundum er að vitna í orð Ólafs sjálfs. Á fundum í vor, m.a. í Búðardal 12. mars sl., var vitnað í viðtal við Ólaf sem birtist í Fréttablaðinu 3. mars sl. þar sem hann lýsti þeim sjónarmiðum að mjög nauðsynlegt væri að afnema tolla á mjólkurdufti, svo Mjólka ehf. gæti flutt inn duft í sína framleiðslu. Það er dæmalaust að aðili í mjólkuriðnaði setji fram slík sjónarmið og því eðlilegt að þau sæti gagnrýni. Við hana stendur LK fullkomlega.

 

Um staðsetningu skrifstofu LK er það að segja að það hefur verið stefna Landssambandsins að vera hreyfanleg samtök, skrifstofa þess hefur verið á Akureyri, Hvanneyri og í Reykjavík. Flakki hennar um landið er hvergi nærri lokið. Svo er vert að geta þess að núverandi húsnæði skrifstofunnar er alfarið í eigu íslenskra kúabænda.

 

Viðtal við Baldur Helga Benjamínsson, framkvæmdastjóra LK.

 

Viðtal við Ólaf M. Magnússon, framkvæmdastjóra Mjólku ehf.

 

Glæra með viðtali við Ólaf, Fréttablaðið 03.03.2007.