Beint í efni

Félagsgjöld BÍ vegna fyrri hluta árs

07.04.2021

Kröfur vegna félagsgjalda í Bændasamtökum Íslands fyrir tímabilið janúar-júní 2021 voru stofnaðar í heimabanka félagsmanna fyrir páska. Eindagi félagsgjaldanna er 19. apríl og eru bændur hvattir til þess að gera upp innan þess tíma.

Einungis er innheimt núna fyrir fyrstu sex mánuði ársins vegna fyrirhugaðrar sameiningar BÍ og búgreinafélaganna. Upphæðin byggir á samþykkt Búnaðarþings 2021 og er áætluð út frá veltuþrepum fyrra árs. Lögð var til 0,32% veltutenging á þrep, að lágmarksgjald væri 20.000 krónur og þak á veltuviðmiði 500 milljónir króna. Félagsgjald aukafélaga að BÍ árið 2021 verður 20.000 krónur og innheimtar verða 2.000 krónur í Velferðarsjóð BÍ með hverju félagsgjaldi.

Veltutengdum þrepum fjölgað seinni hluta árs

Þann 1. júlí nk. verður innheimt félagsgjald samkvæmt breyttu veltutengdu, þrepaskiptu gjaldi fyrir mánuðina júlí-desember. Búnaðarþing 2021 samþykkti drög að fjárhæðum og þrepaskiptingu félagsgjalds fyrir seinni hluta ársins. Veltutengdum þrepum verður fjölgað og verður það kynnt vel í aðdraganda Aukabúnaðarþings sem haldið verður 10. júní nk. Jafnframt er gert ráð fyrir að félagsmenn skrái sig á viðkomandi búgrein/búgreinar sem endurspegli starfsemi félagsmanns.

Þegar uppfærð skráning á veltu liggur fyrir um mitt ár, eiga aðilar von á endanlegu uppgjöri eftirstöðva tímabilsins.

Fulltrúar BÍ svara fyrirspurnum í síma 563-0300 á skrifstofutíma og í netfangið gj@bondi.is