
Félagsaðild að LK
23.12.2016
Senn líður að því að nýtt ár gengur í garð og við kveðjum það gamla. Það eru nokkrir fastir liðir sem fylgja þessum árstíma; veislur, gæðastundir með fjölskyldunni, jólastressið og svo blessuð fjárlögin. Í gær voru fjárlög 2017 afgreidd og þar mátti finna ákvæði um afnám búnaðargjaldsins frá og með 1. janúar næstkomandi. Það kallar á að greiðsla félagsgjalda til búgreinafélaga mun vera með öðrum hætti en hefur verið.
Á síðasta aðalfundi LK var samþykkt að leitast eftir því að félagsgjaldið yrði greitt í gegnum afurðastöðvar sem ákveðin upphæð af hverjum innvigtuðum lítra mjólkur og hverjum grip í flokkum UN, K og K1U. Það er svo aðalfundar að ákvarða upphæð félagsgjaldsins og skiptingu þess milli LK og einstakra aðildarfélaga hverju sinni.
Meðalgreiðsla búnaðargjalds á hvert kúabú fyrir árið 2015 var 383.000 krónur og þar af runnu 95.750 krónur til LK. Gengið var útfrá því við ákvörðun félagsgjaldsins að gjaldið til LK myndi haldast í hendur við það sem áður hefur verið.
Niðurfelling búnaðargjaldsins kemur til af þeim sökum að ríkið getur ekki lengur sjálfkrafa innheimt félagsgjöld fyrir ákveðin félög, án upplýsts samþykkis viðkomandi félaga fyrir innheimtu félagsgjalda. Það hefur í för með sér að frá og með 1. janúar n.k. er enginn skráður í Landssamband kúabænda nema að hafa sótt um að gerast félagi. Hægt er að sækja um félagsaðild með því að senda póst á lk@naut.is, merkt félagsaðild.
Hlutverk LK
Samtökin fögnuðu 30 ára afmæli sínu fyrr á árinu. Í 30 ár hefur hlutverk LK verið að sameina kúabændur landsins um hagsmunamál sín og vinna að framgangi þeirra –og það munum við áfram gera. Framundan eru miklar áskoranir en á sama tíma mörg tækifæri. Fram til ársins 2019 mun starfa hópur sem hefur það hlutverk að endurskoða nýsamþykkta búvörusamninga og þar höfum við okkar fulltrúa, Elínu Heiðu Valsdóttur, stjórnarmann LK. Auk hennar sitja í nefndinni fyrir hönd bænda Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, og Björgvin Bjarnason, formaður svínaræktarfélags Íslands. Þessi vinna er gríðarmikilvæg fyrir landbúnaðinn í heild. Þar á að móta svokallaða þjóðarsátt um landbúnaðinn. Það er brýnt að samhliða þessari vinnu séum við duglegri að segja frá okkar starfsumhverfi, kerfinu sem við störfum eftir og hvers vegna hlutirnir eru gerðir á þennan hátt en ekki hinn. Eins einkennilegt og það kann að hljóma þá var þó eitt jákvætt við alla þá neikvæðu umræðu sem skapaðist í kringum búvörusamningana síðasta árið; neytendur eru móttækilegri fyrir og eru farnir að kalla á eftir upplýsingum um framleiðslu landbúnaðarafurða. Við eigum að grípa þetta tækifæri og kynna okkar starf sem víðast og með sem fjölbreyttustum hætti. Því einungis með miðlun á upplýsingum fáum við stuðning fólks og skilning á mikilvægi þess að á Íslandi sé stundaður sem fjölbreyttastur landbúnaður.
Mikilvægi hagsmunagæslu
Á haustfundum okkar um landið fyrr í vetur sköpuðust miklar og góðar umræður um félagsgjöldin og hvað það þýðir að vera félagi í LK. Langflestir voru sammála um mikilvægi þess að kúabændur stæðu saman, kæmu fram sem ein heild og hefðu vettvang til að koma sínum málum á framfæri. Á þessum bráðum 6 mánuðum sem ég hef verið í starfi framkvæmdastjóra hef ég séð ótal dæmi um það hve mikilvægt það er að samtök eins og LK séu til staðar. Samtökin njóta virðingar innan stjórnsýslunnar og sjónarmið og álit vega þungt við gerð lagafrumvarpa og setningu reglugerða sem snúa að starfsumhverfi kúabænda. Menn taka fagnandi á móti upplýsingum sem þeir búa ekki yfir –og ef þeir búa ekki yfir þeim og enginn er til staðar til að veita upplýsingarnar, þá er ansi erfitt að sjá að hagsmunir kúabænda væru hafðir í fyrirrúmi í slíkri vinnu. Hin gullna regla er nefninlega sú að það er enginn að fara að gæta hagsmuna kúabænda sérstaklega, nema kúabændur sjálfir.
Stöndum vörð um félagið okkar
Það skiptir miklu máli að við tökum öll þátt í að halda þessum félagsskap á lífi. Á haustfundum fengum við ótal umsóknir um félagsaðild, en markmiðið er að sjálfsögðu að allir kúabændur sameinist um félagið sitt. Þann 5. janúar næstkomandi hefur LK því boðað til formannafundar þar sem félagsgjöldin verða rædd og hvernig við tryggjum sem mesta þátttöku. Þar eru nokkrir hlutir sem þarf að skoða sérstaklega og má þar nefna seturétt á aðalfundi LK, það er að segja að aðilar sem ekki eru skráðir í LK geta ekki verið fulltrúar aðildarfélags á aðalfundi. Einnig höfum við fengið fyrirspurnir um aukaaðild að samtökunum fyrir þá sem ekki eru lengur í búrekstri en vilja taka þátt í félagsstarfinu. Slíkum áhuga tökum við fagnandi og munum við finna lausnir á því og öðrum málum sem munu óhjákvæmilega koma upp á næstu mánuðum, sem er eðlilegur fylgifiskur þegar verið er að breyta félagskerfi sem þessu.
Að lokum óska ég ykkur gleðilegra jóla og þakka fyrir gott og ánægjulegt samstarf á líðandi ári.
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri LK