
Félagatal Bændasamtaka Íslands – um 6.000 meðlimir
28.10.2009
Nú stendur yfir vinna við gerð samræmds félagatals fyrir Bændasamtök Íslands í heild. Tilgangurinn er að öðlast betri yfirsýn yfir hversu margir einstaklingar eru félagar í samtökunum og bæta upplýsingaflæði til þeirra. Af þessum sökum hefur verið kallað eftir félagaskrám frá öllum aðildarfélögum samtakanna, sem þau hafa nú öll skilað.
Að sögn Sigurðar Eyþórssonar, framkvæmdastjóra Landssamtaka sauðfjárbænda og umsjónarmanns þessa verkefnis, hafa gögnin verið samræmd og keyrð saman við þjóðskrá en gert er ráð fyrir að félagatalið verði tilbúið til notkunar um næstu áramót. „Fyrsta samantekt gefur til kynna að félagsmenn séu rétt um 6.000 en algengt er að sami einstaklingur sé félagi í 2-5 aðildarfélagum BÍ,“ segir Sigurður.
Félagar í Bændasamtökum Íslands munu fá send vildarkort þegar félagaskráin verður tilbúin og mun það virka sem félagsskírteini jafnframt því sem það gildir sem afsláttarkort á hóteli Bændasamtakanna, Hótel Sögu. „Á síðari stigum er síðan ætlunin að þau aðildarfélög sem vilja geti fengið aðgang að sínum gögnum í gegnum vefinn og hafi þannig aðstöðu til að halda þeim við á einfaldan hátt, en það verður kynnt nánar þegar að því kemur.
Í samantekt Sigurðar kemur fram að félagar eru flestir á aldrinum 51-65 ára, eða 35,9%, litlu fleiri en í hópnum 36-50 ára, sem eru 33,6%. Jafnframt kemur fram að félagsmenn er að finna í öllum sveitarfélögum landsins, flesta í Borgarbyggð eða rúmlega 400. Flestir félagsmenn eru á starfssvæði Búnaðarsamtaka Vesturlands eða tæplega 1800 en svæði Búnaðarsambands Suðurlands er þar skammt á eftir með tæplega 1700. Reiknað er með að félagaskráin verði orðin virk ekki síðar en um næstu áramót.