Félag Þingeyskra kúabænda – Básinn 1/2005
09.02.2005
Fréttabréf Félags þingeyskra kúabænda
1. tbl. 6. árg.
Lánasjóður landbúnaðarins – ályktun
Nú er að störfum verkefnisstjórn sem landbúnaðarráðherra skipaði og hefur það verkefni að leggja mat á stöðu og framtíð Lánasjóðs landbúnaðarins. Málið kemur síðan til kasta búnaðarþings sem lætur í ljós álit fyrir hönd bændastéttarinnar. Kúabændur eru virkasti viðskiptamannahópur Lánasjóðsins og því fór formaður LK fram á það við stjórn að fá umræðu um málið og álit stjórnar. Á stjórnarfundi var eftirfarandi ályktun samin og send formanni LK:
Stjórn FÞK varar við þeim hugmyndum að skerða tekjur Lánasjóðsins
nema fyrir liggi áreiðanleg rök fyrir því að það sé okkur kúabændum
hagkvæmt.
Miklar viðsjár eru í rekstri kúabúa m.a. vegna skuldasöfnunar.
Samþjöppun bankakerfisins mun ekki endilega leiða af sér hagkvæmari
viðskipti til lengri tíma litið.
Bónusgreiðslur á umframmjólk sl. verðlagsár – ályktun
Stjórn FÞK fer fram á það við stjórn Norðurmjólkur ehf. að endurskoðuð
verði sú ákvörðun að greiða ekki ,,bónus“ á umframmjólk s.l. verðlagsárs þ.e.a.s. þann hluta hennar sem að stóðst þær kröfur sem til hennar eru gerðar.
Hugleiðingar Hálfdánar á Hjarðarbóli á nýju ári
Þegar Ólöf Hallgrímsdóttir hringdi í mig og spurði mig hvort ég væri ekki til með að rita einhvern pistil í Básinn, varð mér heldur svarafátt. Lá svo sem ekkert sérstakt á hjarta fannst mér. En við nánari umhugsun datt mér í hug að ekki væri úr vegi að taka til umræðu útgáfumál okkar bænda og hvort ekki væri tímabært að breyta þar einhverju.
Þá verður mér fyrst hugsað til Freys. Er einhver þörf á að gefa það blað lengur út ?
Kemur ekki allt það efni, sem þar birtist annars staðar svo sem í Bændablaðinu eða í sérprentunum búgreinafélaganna og á vefsíðum Bændasamtakanna ? Væri ekki hægt að spara heilmikið með því að hætta útgáfu Freys ? Ég þykist vita að ýmsar mótbárur munu heyrast. Freyr er svo gamalt og virðulegt blað. Og hvað með alla safnarana, sem hafa safnað því frá upphafi. Í því getum við fundið allt sem ritað hefur verið um landbúnaðarmálin um áratugaskeið og einhverju máli skiptir o.s.frv.
En ég er þeirrar skoðunar að allt eigi sína lífdaga, hvort sem það nú eru lífverur, fyrirtæki, tímarit eða bara venjuleg verkfæri og hlutir, sem við notum í hinu daglega amstri. Alltaf er að koma eitthvað nýtt og þá verður það gamla oft úrelt og bara fyrir
og ógerningur að geyma allt, hversu gott sem það nú annars kann að vera.
Ég hygg að það hafi mætt nokkurri mótspyrnu á sínum tíma, þegar verið var að draga útgáfu Freys saman og Bændablaðið að yfirtaka það þjónustuhlutverk, sem hann hafði haft, en ég tel að það hafi verið mikið framfaraspor og er mjög ánægður með Bændablaðið. Nú fyrir þá sem telja miklu skipta að Freyr lifi bendi ég á að á þessum tímum hagræðingar og samruna væri tilvalið að sameina bara Bændablaðið og Frey og það gæti þá t. d, heiti Freyr- Bændablaðið eða Bændablaðið-Freyr. Fyrir safnarana, sem búnir eru að fylla svo margar hillur af Frey að þeir eru komnir í plássþröng, en geta ekki hætt, væri þetta hin besta lausn.
Ég skal viðurkenna að fyrst þegar hætt var að gefa út Nautgriparæktina, sá ég svolítið eftir henni, en nú er ég löngu orðinn sáttur við það fyrirkomulag, sem er á þeim upplýsingum, sem við fáum með lausu fjósmöppublöðunum um ungnautin. Að vísu mættu þau stundum koma aðeins örar til okkar og ekki seinna en sæðið úr þeim. Sama gegnir um nautaskrána með línumatinu á reyndu nautunum. Hún er ágæt, en ég sé enga þörf á að birta þær upplýsingar líka í Frey Að vísu eru þessi blöð engir sérstakir safngripir, þegar þeir eru búnir að velkjast í fjósinu um áraraðir, en þar eru þessi blöð samt best geymd meðan þau hafa eitthvert notagildi. Að vísu væri svo sem ágætt að hafa annað eintak á náttborðinu, en það gæti ég efalaust fengið, ef ég leitaði eftir því og þá látið binda inn, er fram líða stundir. Þar eru margar fallegar myndir. Þá geta þær bækur komið við hliðina á gömlu Nautgriparæktinni í bókahillunni, ef eitthvert pláss verður eftir.
Þá vík ég að öðru. Mikil tíska er nú hjá öllum sem vilja láta taka eitthvert mark á sér að halda úti vefsíðum. Sjálfsagt er þetta talsveð vinna, en lítið gagn er að vefsíðum sem upplýsingamiðlara, ef upplýsingarnar, sem þar eru birtar eru orðnar úreltar þegar þær eru settar inn á vefinn. Þannig var með upplýsingar um útsent sæði frá BSE, og þegar ég kvartaði yfir þessu voru viðbrögðin þau að hætta þessari birtingu sem var í sjálfu sér skárra en að fylla síðuna með löngu úreltum upplýsingum. Helstu röksemdirnar fyrir þessu voru þær að engin trygging væri fyrir því að frjótæknirinn ætti það sem út væri sent. Það gæti klárast. Eins gæti verið eitthvað til úr næstu sendingu á undan. Ekki þurfti nú háskólagenginn búfræðing til að segja bændum þetta. Spurningin er hvort bændur telja gagnlegt að hafa þessar upplýsingar í prentvænni útgáfu á vefsíðunni svo nýjar sem verða má. Ég tel svo vera og tel að það eigi að halda þessu áfram, og ef bændur almennt eru sömu skoðunar og nota þetta, þá eigum við ekki að láta starfsmenn okkar ákveða það fyrir okkur hvort þetta er gert.
Þó vinna okkar starfsmanna sé dýr, trúi ég ekki að þetta geti verið svo umfangsmikið að það skipti máli. Þessar upplýsingar hljóta að vera slegnar inn í tölvu einhvers staðar hvort sem er og þarf þá ekki annað en millifæra þær.
Ég bendi á að þegar ný naut koma til notkunar er það einmitt með þessum hætti sem hægt er að koma skilaboðunum til bændanna. Þeir eru ekkert alltaf að hitta frjótækninn þegar sætt er og miklu einfaldara að senda þeim þetta öllum á einu bretti á vefsíðunni en að hver og einn þurfi að vera að afrita eða skanna blöð frjótæknanna.
Eða á þetta kannski að vera eitthvert leyndó ?
Læt þetta duga.
Með kveðju, Hálfdan.
Skyldumerkingar nautgripa
Bréf barst frá Þórólfi formanni LK um að einlægur áhugi væri hjá Embætti yfirdýralæknis þess efnis að naugripir verði merktir í bæði eyru en ekki bara annað eins og nú er kveðið á um í reglugerð.. Hann óskar eftir upplýsingum frá bændum hvort þeir hafi verið að merkja kálfa sína í annað eyra eða bæði og hvernig merkin tolla í. Einnig væri gott að vita hversu margir kálfar hafa verið merktir. Ef þið hafið tök á þá væri gott ef þið gætuð sent þessar upplýsingar til Snorra framkvæmdastjóra eða þá beint til Þórólfs.
Í farvatninu:
Aðalfundur FÞK þriðjudaginn 1. mars n.k. kl. 13:00. Félagsmenn eru beðnir um að ráðstafa þeim degi ekki til annars og hvetur stjórnin menn til að mæta vel.
Opinn dagur föstudaginn 25. febrúar hjá Norðurmjólk, Norðlenska stórgripaslátrun og Viking brugg. Takið daginn frá!
Betur auglýst síðar.
F é l a g Þ i n g e y s k r a k ú a b æ n d a
Marteinn Sigurðsson s- 4643601 kviabol@mi.is
Ólöf Þ. Hallgrímsd. s- 4644344 hraunberg@simnet.is
Sveinbjörn Sigurðsson s- 4643546 buvellir@isholf.is