Félag Þingeyskra kúabænda – Básinn 4/2002
20.12.2002
Desember 2002 Básinn 4.tbl. 3.
Fréttabréf Félags þingeyskra kúabænda
JÓLABÆN KÚABÓNDANS:
“Megi hún Huppa mín bera í síðasta lagi 22. desember og hvorki fá doða né vera með fastar hildar, ef það verður þannig er þó skömminni skárra að hún beri að morgni Þorláksmessu því þá er þó virkur dagur hjá blessuðum dýralæknunum. Svo óska ég þess að Branda seinki burði fram yfir áramót, já og Tungla beiði ekki einmitt á jóladag, af því að hún fór nú hjá síðast. Svo væri ljómandi að flórskafan bilaði í það minnsta ekki fyrr en svona 3. janúar og enginn stigi á spena rétt á meðan jólahátíðin gengur yfir.
Ef ég mætti biðja um meira þá væri ágætt að sleppa við að þurfa að moka fyrir mjólkurbílinn og að engir óvæntir reikningar kæmu í póstkassann svona næstu tíu dagana. Ef þú ert enn að hlusta, þarna uppi, viltu þá líta aðeins á próteintöluna í tanknum og fá landsmenn til að innbyrða sem allra mestan rjóma yfir hátíðarnar.
Fleira var það ekki – bestu kveðjur úr fjósinu
Víðiholtsbændur
rólegir í jólafötunum með fjósið á skjánum
Já, það er ýmislegt fleira en guðþjónustur, jólafrí og jólaboð sem kúabændur þurfa að takast á við um hátíðarnar. Einn þátturinn í því að bæta starfsaðstæður kúabænda og lífsstíl eru eftirlitsmyndavélar en nú þegar hafa nokkrir mjólkurframleiðendur á félagssvæðinu komið sér upp slíkum búnaði.
Í þeim hópi eru bændurnir í Víðiholti. Að sögn Jóns, sem komið hefur í gagnið myndavélareftirliti frá Ljósgjafanum á Akureyri, koma þessar myndavélar mjög vel út og eru rakaþéttar með linsu, en athygli hefur vakið hversu myndgæði eru góð. Mjög litla birtu virðist þurfa til þess að sjá á skjánum það sem er að gerast í fjósinu og auðvelt er að tengja myndina inn á sjónvarpið í íbúðarhúsi t.d. er þá komin ein stöð enn.
Á svæði Norðurmjólkur hefur nú þegar verið sent út dreifibréf þar sem eftirlitsmyndavélar eru kynntar sérstaklega ásamt þeim búnaði sem til þarf. Það er venjulegur sjónvarpskapall sem er lagður milli fjóss og íbúðarhúss, en sé vegalengd meira en 300 metrar þarf magnara til þess að ná myndinni heim í hús.
Það er ljóst að mögulegt er að koma upp virkum búnaði til að fylgjast með kúm, sem til dæmis eru nýbornar eða komnar að burði eða til að fylgjast með fjósinu í heild fyrir mjög ásættanlegt verð. Að sjálfsögðu eru nokkrir aðilar sem bjóða þennan búnað en um þessar mundir hefur Randver hjá Ljósgjafanum á Akureyri aflað sér sérstakra upplýsinga um þessi mál samkvæmt beiðni Kristján mjólkureftirlitsmanns í samvinnu við bændur í Þingeyjarsýslu. Væri ekki kjörið að festa slíkan búnað núna fyrir áramótin og jafnvel koma honum í gagnið?
Nokkur eintök af bókinni Íslenska mjólkurkýrin frá bókaútgáfunni á Hofi til sölu á vægu verði til félagsmanna. Afgreidd í Miðhvammi og á Laxamýri ef óskað er.
Nýjar og áhugaverðar fréttir fyrir nautgripabændur á heimasíðu Norðlenska aukin, þjónusta á Bændavef fyrirtækisins. Lítið við á nordlenska.is
Sendum kúabændum á svæði Félags þingeyskra kúabænda og fjölskyldum þeirra
Bestu óskir um friðsæla og gleðiríka jólahátíð
og búsæld á nýju ári
Þökkum samstarfið á árinu sem er að líða
Stjórn Félags þingeyskra kúabænda
Kristín Linda Miðhvammi
Sveinbjörn Búvöllum
Atli Laxamýri