Beint í efni

Félag kúabænda á Suðurlandi ályktar um kjötmál

25.07.2002

Stjórn Félags kúabænda á Suðurlandi hefur sent frá sér ályktun vegna mikillar óánægju sunnlenskra bænda með það verð sem sláturleyfishafar greiða fyrir nautgripakjöt. Ályktunin er svohljóðandi:

Stjórn Félags Kúabænda á Suðurlandi lýsir óánægju sinni með að ekki skuli hækkuð verð á bestu flokkum kýrkjöts og nautakjöts. Líkt og spáð var í vor er framboð nú mjög lítið og lýsir stjórn

furðu sinni á að lögmál framboðs og eftirspurnar skuli þá ekki gilda sem í öðrum viðskiptum.

 

Samkeppni er vissulega hörð á kjötmarkaði en nautakjötið skipar vissan sess og er neysla þess mjög stöðug og svipuð síðustu 10 til 12 ár þrátt fyrir samkeppni við aðrar greinar. Nú um allnokkurt skeið hefur skilaverð til bænda tæpast staðið undir framleiðslukostnaði og stefnir í hrun greinarinnar ef fram fer sem horfir. Því krefst stjórnin þess að aðilar endurskoði nú þegar, þau verð sem boðin eru bændum fyrir þessar afurðir, enda hefur reynslan sýnt að framleiðendaverð í þessum geira hefur lítil sem engin markaðsleg áhrif.

 

Sigurður Loftsson formaður,

Jóhann Nikulásson gjaldkeri,

Valdimar Guðjónsson ritari.“