Beint í efni

Félag kúabænda á Suðurlandi6/2002

08.10.2002

Fundur haldinn í húsakynnum Bssl. á Selfossi. Á seinni hluta hans  mættu  gestir fundarins þeir Halldór Runólfsson yfirdýralæknir og Sveinn Sigurmundsson.

 

Félagsmál

Í upphafi ræddur félagsþátturinn hjá FKS. Ágúst Dalkvist taldi nauðsynlegt að þjóna jaðarbyggðum betur. Ólafur í Geirakoti sagði raunverulegan áhuga aðeins koma fram ef heit mál væru í brennidepli, eða ef frá stjórn kæmu hlutir sem skiptu máli. Grétar í Þórisholti taldi staðsetningu funda skipta máli.  Valdimar í Gaulverjabæ sagði stundum ekki mikla fundarsókn á opna bændafundi af sumum svæðum í Flóanum. Það hefði lítið með staðsetningu að gera og því mætti ekki ofmeta langar vegalengdir í þessu sambandi.Þó þyrfti vissulega að þjóna svæðinu öllu eins og kostur væri. Björn í Holti sagði alltaf stóran hluta vera áhugalítinn gagnvart félagsmálum. Því væri strax til bóta að koma upplýsingum til bænda. Katrín í Ásólfsskála kvaðst fylgjast með á Netinu,í tímaritum og víðar.  Það væri nóg fyrir sig.  Krafta ætti  að nýta í kjarabaráttu og þá hluti fyrir stéttina en að eyða löngum tíma í viðræður um þessi mál. Fleiri fundarmenn töldu bætta upplýsingu FKS í hinum ýmsu miðlum síðustu misseri til bóta.

 

Mjólkurframleiðslan

Sigurður kom inná mjólkurframleiðslu þessa mánuðina. Hækkunarþörf nú væri kringum 6%. Sölutölur sína nokkurn samdrátt eftir uppsveiflu síðustu ára.

 

Málefni LK

Egill á Berustöðum sagði lítið hafa gerst varðandi nýjan Búvörusamning. Þó þrýst á af hálfu Bændasamtakanna og LK  að hefja viðræður sem fyrst. Formaður BÍ virðist ekki alveg samstíga ályktun  frá síðasta aðalfundi LK.  Hefur aðeins öðruvísi afstöðu til mála, sérstaklega hvað varðar kvótaviðskipti.

 

Skýrsla um Salmonellu

Næst hélt Halldór yfirdýralæknir erindi og rakti skýrslu starfshóps um salmonellu og campylobacter.  Í nefndinni voru auk hans Sveinn Sigurmundsson og Níels Árni Lund.

 

Í Skagafirði reyndist vera Salmonella í frárennsli frá rotþró. Siturlögn frá rotþróm væri því mjög nauðsynleg. Hann taldi ástand frárennslis í þéttbýli víða ófullnægjandi.  Í raun gæti fólk frá smituðum svæðum skilið eftir bakteríur í umhverfinu ef þessi mál væru ekki í lagi, sem væri mjög alvarlegt. 

 

Boðið er upp á að dýralæknar komi á bæi, bændum að kostnaðarlausu ef gripir drepast af óvæntum eða óþekktum orsökum.   Smithætta getur verið þar sem búfé neytti vatns úr “hægfara lækjum” og pollum.  Hann taldi nauðsynlegt að taka á í frárennslismálum sveitarfélaga  og sum  hefðu farið í markvissar aðgerðir í þeim efnum. 

 

Halldór taldi löggjafann hafa verið snúinn í vöfum þegar upp komu vandræðamál á Suðurlandi árið 2000. Hann sagði til fyrirmyndar að dýrahræ væru sótt í sumum sveitarfélögum og komið á viðurkenndan urðunarstað.  Varðandi drykkjarvatn þá sagði hann kýr í Noregi þurfa um 100 lítra vatns á  sólarhring í hányt. Okkar kýr væru í námunda við það og gæði vatnsins skiptu máli fyrir afurðir og heilsufar.

 

Sveinn Sigurmundsson taldi áhyggjuefni kúabænda geta verið varðandi kjarnfóðrið.  Smitleið er hugsanleg þá leið og ekki enn útilokað að smit á kjúklinga- og svínabúum hafi komið með fóðri.

 

Halldór sagði að við algengustu afbrigði Salmonellu þyrftu þyngri jórturdýr meiri “massivafan” skammt til að veikjast. Vambarflóran væri það öflug. Hann kvaðst hins vega viðurkenna að að eftirlit með fóðri hefði ekki verið nægjanlegt varðandi sýnatökur.  Ekki hefði í raun verið byrjað á því markvisst fyrr en á þessu ári.  Vonaðist hann til að reglugerð varðandi þau mál liti dagsins ljós á þessu ári.   

 

Yfirdýralæknir sagði nauðsynlegt  hjá fólki í sveitum sem annarsstaðar að sýna sérstaka gát, ef það hefði veikst erlendis af Salmonellu.  Sérstaklega ef frárennsli væri ekki í lagi.  Einnig væri áhættan alltaf mest kringum fjölförnustu ferðamannastaði ef hnökrar væru á hreinlætismálum og frárennsli.

 

Valdimar í Gaulverjabæ spurði um smithættu frá kjúklingaeldi sem væri að færast út um sveitir.    Halldór sagði þar ekki mikla hættu, en hins vegar kamphylobakteráhætta.  Heldur meiri vandamál væru nú á svínabúum og þar væru gerðar auknar kröfur um förgun skíts.

 

Sigurlaug í Nýjabæ vildi vita um helstu áhættuleiðir með fóðri.    Halldór kvað til dæmis alltaf líflegt fuglalíf við höfnina, skip væru mishrein o.s. frv. Salmonellu í fóðri væri hins vegar erfitt að finna og sanna.

 

Ef upp kæmi slíkt tilfelli færi strax í gang viðbragðsferli.  Talað væri við sæðingamenn, mjólkurstöð og fleiri aðila.  Viðkvæmt væri að segja frá vandamálum, en trúlega væri opin umræða betri.  Halldór sagði jákvætt sýni í vatni varðandi kólí og saurkólí, strax vísbendingu um hugsanlega sýkingu.

 

Sigurlaug spurði um garnaveikihólf  í Rangárþingi. Fjöldi fjár á sínu svæði nálgaðist nú kúafjölda. Hún spyrði því sjálfa sig um hagsmuni.  Halldór sagði ekki vilja til að slaka á kröfum þó nautgripir væru ekki að veikjast neitt.  Sigurlaug taldi vanta samræmingu reglna milli yfirdýralæknis, læknis á Keldum og héraðsdýralæknis.  Halldór kvaðst geta tekið eitthvað af þvi til sín og vel mætti athuga þau mál, einnig kynningu og fræðslu til bænda og fleiri.

                               

 

Samantekið og stytt,  Valdimar Guðjónsson ritari.