Félag kúabænda á Suðurlandi6/2003
10.12.2003
Fundargerð félagsráðs Félags kúabænda á Suðurlandi 10.des 2003
Fundur haldinn í húsakynnum MBF og hófst kl. 11:15
1. Fundarsetning
Formaður, Sigurður Loftsson, setti fundinn.
2. Aðalfundur FKS 2004
Sigurður ræddi fyrst væntanlegan aðalfund og fyrirkomulag hans. Fór yfir kosti og galla uppstillingarnefndar ofl.
Gunnar Sverrisson taldi marga kosti að hafa uppstillingarnefnd. Velti hins vegar einnig upp þeim möguleika til umhugsunar að kjósa á fundinum.
Ólafur í Geirakoti sagði uppstillingu hafa gefist vel og kæmi í veg fyrir vandræðagang sem gæti verið kringum kosningar. T.d. ef fólk þekkti ekki til einstaklinga ofl. Ræddir kostir og gallar frá ýmsum hliðum.
Fundarmenn voru sammála um að halda því formi sem verið hefur. Einnig þá skipan frá síðasta ári þannig að einn nefndarmaður væri úr félagsráði og tveir utan þess. Stjórn falið að ganga frá skipan í uppstillingarnefnd eftir þessum formerkjum. Einnig dagskrá aðalfundar, sem færi eftir gengi mjólkurhópsins.
Talið nauðsynlegt að sem flestir fulltrúar BÍ í samninganefnd fyrir mjólkursamning mæti á fundinn til að heyra hug og vilja bænda til nýs samnings.
3. Verðlagsmál mjólkur
Hækkun til bænda er nú ákveðin 2,4% 1. janúar 2004.
4. Nautakjöt
Söluhorfur eru þokkalegar, biðlistar að mestu horfnir. Sigurlaug sagði verð enn alltof lágt, þó aðeins hefði það þokast upp.
Ólafur í Geirakoti sagði nautgripakjöt greinilega algjöra mæðu hjá sláturleyfishöfum. Lítið væri lagt uppúr að selja þessa afurð, en t.d. áburðarauglýsingar flæddu um allt.
Varðandi sölu á nautakjöti þá taldi Sigurlaug áhyggjuefni að hvergi fáist orðið nautakjöt í kjötborði á allri suðurströndinni og víðar um landið. Verið er að venja neytendur í stórum stíl af neyslu á vöðva og steik.
Sigurður taldi rétt að senda áskorun aftur til sláturleyfishafa um hækkun. Einnig að brýna fyrir bændum að selja einungis gripi til þeirra sem bjóða hæsta verðið.
Landbúnaðaráðherra hefur vísað frá beiðni um stuðning við framleiðslu gæðanautakjöts og telur það ekki njóta stuðnings í ríkisstjórn.
5. Mjólkursamningar
Egill á Berustöðum heimsótti fundinn og greindi frá stöðu mála hjá samninganefndinni.
6. Beiðni um kaup á frystu nautasæði
Dýralæknaþjónusta Suðurlands hefur sent umsókn til Nautastöðvar BÍ um að fá keypt nautasæði. Erindi þetta kom fyrir stjórn BÍ en afgreiðslu málsins var frestað.
Sigurður sagði þetta félagspólitískt mál að sumu leyti. Þjónustan hefði verið góð til þessa og tiltölulega ódýr.
Gunnar í Hrosshaga taldi rétt að fara varlega í röskun á núverandi kerfi.
Sveini í Reykjahlíð fannst þurfa að hugsa þetta til enda. Staðan gæti orðið sú ef útvíkkun yrði á þessari starfsemi að dýralæknar réðu algjörlega verðlagningu sjálfir. Þá væru bændur í alveg nýrri stöðu.
Jóhann taldi gegna öðru máli ef um verktöku væri að ræða. Það væri önnur leið sem einnig væri tíðkuð hérlendis. Hins vegar yrði án efa dýrara til framtíðar að hafa tvö kerfi í gangi.
Sigurlaug taldi rétt að fara varlega í breytingar á þessari þjónustu.
7. Lagabreytingar hjá Bssl
Farið yfir störf laganefndar og ræddar breytingar sem lagðar voru fram á síðasta aðalfundi.
8. Önnur mál
Daníel í Akbraut taldi endingu íslenska kúakynsins of stutta. Hann taldi of mörg gallajúgur koma út úr ræktunarstarfinu. Komið inn á leiðir til fljótustu framfara.
Sigurður sagði fósturvísa ekki flýta erfðaframförum. Hins vegar fengjust fleiri einstaklingar af sama ættlið.
Ræddar leiðir frá ýmsum hliðum.
Daníel kom einnig inn á streptókokka. Kvaðst hafa skóhlífar og þess konar varnir í sínu fjósi. Jafnvel þó ekki væri hætta á að fá smitjúgurbólgu þá væri annað jafnvel hættulegt.
Gunnar í Túnsbergi kvaðst hafa rekið augun í lélega flokkun nauta í síðustu slátrun af nautastöðinni. Hann taldi það slæmt og fundarmenn tóku undir það. Vangaveltur voru um fóðrun. Gunnar og fleiri töldu slaka fóðrun jafnvel geta haft áhrif á gæði sæðis.
Valdimar Guðjónsson fundarritari