Beint í efni

Farmal-dagurinn á laugardaginn!

15.07.2011

Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri hefur um árabil efnt til sérstakra daga á hásumri til þess að kynna þætti úr tæknisögu landbúnaðarins, m.a. með sýningum á forn-dráttarvélum, bæði vélum safnsins en ekki síður vélar í eigu áhugamanna. Sýningarnar hafa öðrum þræði verið hugsaðar sem vettvangur þessara áhugamanna til þess að sýna gripi sína.
 
Í samvinnu við góða aðila mun Landbúnaðarsafn efna til Farmal-fagnaðar á Hvanneyri laugardaginn 16. júlí nk. Tilefnið er að heiðra Farmalinn og nánustu ættingja hans, Nallana, af ýmsum gerðum. Farmalarnir mynduðu fyrstu bylgju heimilisdráttarvéla hérlendis – á árunum 1945-1950 og teljast því tímamótavélar í sveitum landsins.
 
Á þessum Farmal-degi eru allir áhugamenn velkomnir með forn-dráttarvélar sínar að Hvanneyri hvaða gerðar sem eru. Eigendur Farmal-véla og annarra forn-dráttarvéla frá verksmiðjum International Harvester eru sérstaklega velkomnir með gripi sína. Fornvélarnar verða sýndar og farið í stuttan skrautakstur í fögru staðarumhverfinu.
 
Valdar verða og heiðraðar fallegustu Farmal-forndráttarvélarnar, líkt og gert var á Ferguson-degi safnsins sumarið 2009. Helsta mottó fagnaðarins á að vera Gömul vél er gaman manns. Ullarselið verður á sínum stað og fleira verður í boði.
 
Þá standa vonir til að á Farmal-fagnaðinum verði hægt að kynna nýútkomna bók um þessar merku dráttarvélar: Alltaf er Farmall fremstur mun bókin heita. Höfundur hennar er Bjarni Guðmundsson forstöðumaður Landbúnaðarsafnsins en útgefandinn Uppheimar hf.
 
Dagskrá Farmal-fagnaðarins er m.a. á heimasíðu Landbúnaðarsafnsins, www.landunadarsafn.is  
 
Nánari upplýsingar um Farmal-fagnaðinn veitir Bjarni Guðmundsson, s. 844 7740/SS – fréttatilkynning.