Beint í efni

Falsaðir ostar í Rússlandi?

01.05.2012

Matvælarisarnir Danone og PepsiCo bera sig nú illa undan samkeppninni í Rússlandi, við þarlendar mjólkurvörur. Fyrirtækin tvö eru í raun ráðandi á rússneska markaðinum með um 45% markaðshlutdeild, en hún var þó áður 60% og það eru því önnur félög að ná góðum tökum í Rússlandi. Danone og PepsiCo berjast að sjálfsögðu fyrir sinni stöðu og vilja núna meina að samkeppnisstaðan sé ójöfn og að á markaðinum séu ”falsaðar” vörur sem enganvegin standist sömu gæðakörfur og fyrirtækin tvö gera.

 

Skýra fyrirtækin þessa fullyrðingu með þeim rökum að vöruverðið sé svo lágt að það sé útilokað að hægt sé að framleiða mjólkurafurðirnar á jafn lágu verði og raun ber vitni um nema í vinnsluna séu notuð einhver ódýr hráefni eins og plöntufita í stað mjólkurfitu. Afurðastöðvar í Rússlandi hafa hinsvegar hafnað þessu og segjast framleiða mjólkurvörurnar með eðilegum hætti. Líklega fer málið fyrir dómstóla sem þá skera úr um hvort verið sé að selja iðnaðarvörur undir fölskum vöruheitum.

 

Þess má geta að Danone og PepsiCo standa saman að þessari fullyrðingu en þess utan berjast fyrirtækin af mikilli hörku á markaðinum í Rússlandi og hafa m.a. kært hvort annað fram og til baka í tengslum við markaðsstarf þar í landi/SS.