Falsaðar matvörur í Rússlandi
18.01.2016
Eftir að Rússar lokuðu fyrir innflutning helstu landbúnaðarvara til landsins frá mörgum löndum í Evrópu og víðar hefur eðlilega orðið gjörbreyting á matvörumarkaðinum þar, enda var stór hluti fluttur inn til landsins. Nú hefur svo komið í ljós að á rússneska markaðinum eru nú ótal falsaðar matvörur, þ.e. vörur sem innihalda hreint ekki það sem þær ættu að gera samkvæmt innihaldslýsingum.
Þetta kemur fram í nýlegu yfirliti frá RUIE sem eru einskonar samtök iðnaðarins í Rússlandi. Fram kemur m.a. að 76% af þeim osti sem er seldur í landinu innihaldi fyrst og fremst plöntufitu en ekki mjólkurfitu svo dæmi sé tekið. Þá innihalda unnar kjötvörur afar lítið af kjöti og þeim mun meira af plöntupróteinum í staðinn, enda skortur á kjöti líkt og mjólkurafurðum í landinu/SS.