Beint í efni

Fagráðstefna skógræktar 29.-30. mars

23.03.2022

Skráning er hafin á fagráðstefnu skógræktar sem haldin verður á Hótel Geysi í Haukadal 29.-30. mars undir yfirskriftinni Skógrækt 2030 – Græn ábyrg framtíð. Erindi og umræður um þema ráðstefnunnar fara fram fyrri daginn en þann seinni verða flutt fjölbreytt erindi og sýnd veggspjöld um skógrækt, skógarnytjar, nýjustu rannsóknir og margt fleira.

Fagráðstefna skógræktar er haldin í samstarfi Skógræktarinnar, Landbúnaðarháskóla Íslands, Skógræktarfélags Íslands, Skógfræðingafélags Íslands og Bændasamtaka Íslands. Fyrri dagurinn verður með óhefðbundnu sniði í anda yfirskriftar ráðstefnunnar um græna ábyrga framtíð í skógrækt til 2030. Haldin verða stutt inngangserindi um þrjú umfjöllunarefni. Að því búnu verður efnt til pallborðsumræðna. Efnin sem tekin verða fyrir eru:

  1. Skógræktarstefna til 2030
  2. Kolefnisbinding, ný markmið, tækifæri og vottun
  3. Viðarafurðir

Í lok fyrri ráðstefnudagsins verður líka farið í skoðunarferð þar sem litið verður á sunnlenska skóga og skógartengda starfsemi.

Seinni dagur ráðstefnunnar verður hefðbundnari og á dagskrá hans hefur verið óskað eftir tillögum að veggspjöldum og erindum. Frestur til að skila inn tillögum rennur út í dag 1. mars. Haft verður samband við höfunda fyrir 11. mars.

Skráning og nánari upplýsingar hér