Beint í efni

Fagráð í korn- og jarðrækt vill breytingar á tillögum um fjárfestingastuðning í kornrækt

12.02.2024

Á fyrsta fundi fagráðsins á dögunum var fjallað um reglugerð um fjárfestingastuðning í kornrækt sem matvælaráðuneytið birti á dögunum í samráðsgátt stjórnvalda. Fagráðið gerir ýmsar athugasemdir og tillögur að breytingum á reglugerðinni, meðal annars þær að skilgreina þurfi kornræktarsvæði og að lækka þurfi verulega stærðarviðmið. Sjá nánar í fundargerð fagráðsins, ýtið hér.

Fagráðið áætlar að funda fljótlega aftur til að ræða meðal annars tillögur að fræðslu fyrir og til kornbænda og fjármögnun slíks verkefnis.

Undirbúningur að stofnun fagráðs í korn- og jarðrækt hefur átt sér nokkurn aðdraganda.

Í framhaldi af því að matvælaráðuneytið birti skýrslu sína Bleika akra og í ljósi mikillar áherslu á nákvæmnisbúskap í jarðrækt svo eitthvað sé nefnt, taldi stjórn Bændasamtakanna nauðsynlegt að setja á fót fagráð í korn- og jarðrækt til að vera bæði stjórnvöldum og atvinnugreininni til ráðgjafar í málaflokkunum. Stjórn Bændasamtaka Íslands ákvað því í byrjun desember að setja á fót slíkt fagráð með vísan til 4. gr. búnaðarlaga og hefur það hlotið staðfestingu ráðherra.

Starfssvið fagráðsins er tvíþætt:

  1. Samkvæmt skýrslunni Bleikir akrar nær orðið korn yfir; bygg, hveiti, hafra, rúg og fleiri tegundir sem innihalda hátt hlutfall sterkju.
  2. Vísun í jarðrækt er með víðtækara svið það er jarðrækt vegna bæði kornræktar og til að efla og bæta aðstæður til öflunar gróffóðurs.

Verkefni nýs fagráðs verða fjölbreytt og gert er ráð fyrir að fagráðið sjálft muni útfæra nánar á hverjum tíma hvaða verkefni þurfa að vera í forgangi. Þau verkefni sem stjórn Bændasamtakanna lagði upp með eru eftirfarandi:

- Að móta stefnu í kynbótum og þróunarstarfi í kornrækt.

- Að móta stefnu um áherslur í jarðrækt.

- Að móta tillögur um stefnu í fræðslumálum í korn- og jarðrækt.

- Að móta tillögur um stefnu í rannsóknum í korn- og jarðrækt.

- Að fjalla um þau mál sem vísað er til fagráðsins til umsagnar og afgreiðslu.

- Að metin verði hagræn áhrif af eflingu korn- og jarðræktar.

Í fagráði í korn- og jarðrækt sitja:

Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður (tilnefnd af BÍ)

Björgvin Harðarson (tilnefndur af BÍ)

Þórarinn Leifsson (tilnefndur af BÍ)

Eiríkur Loftsson (tilnefndur af RML)

Þóroddur Sveinsson (tilnefndur af LBHÍ)