Fæst lönd ná að framleiða mjólk á sk. heimsmarkaðsverði
27.11.2010
Í nýrri skýrslu frá IFCN (International Farm Comparison Network), sem Landssamband kúabænda er m.a. aðili að, kemur fram áhugavert yfirlit framleiðslukostnaðar mjólkur í fjölmörgum löndum. Útreikningar samtakanna byggja á meðalbúum viðkomandi samanburðarlanda sem taka þarf tillit til við skoðun niðurstaðnanna.
Framleiðslukostnaðinum er skipt upp í tvo flokka, hreinan rekstarkostnað og óbeinan kostnað s.s. ógreidd laun til bænda og kostnað vegna landnæðis. Gögnin sýna að árið 2009 var framleiðslukostnaður allra helstu mjólkurframleiðslulanda
heimsins töluvert hærri en heimsmarkaðsverðið var á samanburðartímanum, enda snarféll heimsmarkaðsverðið í efnahagskreppunni.
Árið 2008 var meðal heimsmarkaðsverð á orkuleiðréttri mjólk 40,3 dollarar/100 kg eða rétt um 46,7 Íkr/kg, en árið 2009 var meðal heimsmarkaðsverð á orkuleiðréttri mjólk 26,2 dollarar/100 kg eða rétt um 30,4 Íkr/kg (á núverandi gengi 1$=116 Íkr). Á einu ári hafði verðið því hrapað um 35% á heimsmarkaðinum.
Þegar samanburður er gerður yfir þriggja ára skeið, 2006-2009, er meðalverð á heimsmarkaði 34,0 dollarar/100 kg orkuleiðréttar mjólkur eða rétt um 39,4 Íkr/kg. Á sama tíma var framleiðslukostnaður í 40% allra helstu framleiðslulandanna hærri þegar tekið hefur verið tillit til allra kostnaðarliða.
Samkvæmt yfirliti IFCN var meðal framleiðslukostnaður flestra landa Evrópusambandsins árið 2009 u.þ.b. 50 dollarar/100 kg eða um 58 Íkr/kg.
Á meðfylgjandi mynd má sjá súlurit sem sýnir framleiðslukostnað helstu mjólkurframleiðslulandanna þar sem rauði litur súlanna táknar beinan kostnað og græni liturinn óbeinan kostnað. Rauða línan er hinsvegar heimsmarkaðsverðið árið 2009.