Beint í efni

Færeyingar komu, sáu og sigruðu

25.08.2017

Embluverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í ráðhúsinu í Kaupmannahöfn í gærkvöldi. Það voru Færeyingar sem voru sigurvegarar kvöldsins en þeir sópuðu að sér þremur verðlaunum af sjö. Leif Sörensen kokkur var valinn matvælaiðnaðarmaður Norðurlandanna 2017, verkefnið Heimablídni var valið í flokknum um mataráfangastað Norðurlandanna árið 2017 og bændurnir í Dímunargardi fengu Embluverðlaunin sem hráefnisframleiðendur ársins.

Íslendingar og Danir riðu ekki feitum hesti frá Embluverðlaununum að þessu sinni en hinar Norðurlandaþjóðirnar fengu sín verðlaunin hver.

Eftirfarandi hlutu Embluverðlaunin 2017:

Mat fyrir börn og ungmenni 2017
Noregur – Geitmyra Matkultursenter

Mataráfangastaður Norðurlanda 2017
Færeyjar – Heimablídni

Matarfrumkvöðull Norðurlanda 2017
Finnland – Thomas Snellman - REKO

Matvælaiðnaðarmaður Norðurlanda 2017
Færeyjar – Leif Sörensen

Kynningarherferð / Matarblaðamaður Norðurlanda 2017
Álandseyjar – Michael Björklund, Smakbyn

Norðurlandaverðlaun fyrir mat fyrir marga 2017
Svíþjóð – Annika Unt

Hráefnisframleiðandi Norðurlanda 2017
Færeyjar – Dímunargardur

Embluverðlaununum er ætlað að hefja norrænan mat til vegs og virðingar en að verðlaununum standa bændasamtök allra Norðurlandanna auk þess sem norræna ráðherranefndin er bakhjarl þeirra. Verðlaunin eiga að efla sameiginlega vitund Norðurlandabúa á sviði matargerðar og menningar og jafnframt að vekja athygli á norrænum matvælum á erlendri grund.

Verðlaunin, sem eru þau fyrstu sinnar tegundar sem veitt eru á öllum Norðurlöndum, beina kastljósinu að hráefnum, matvælum, framleiðsluaðferðum og fagfólkinu sem stendur þar að baki. Stofnað er til verðlaunanna í þeim tilgangi að miðla þekkingu og reynslu milli landanna og vekja athygli á því sem vel er gert í matvælageiranum.

Embluverðlaunin verða afhent annað hvert ár en í ár sáu dönsku bændasamtökin Landbrug og födevarer um framkvæmdina. 

Upplýsingar um sigurvegarana


Í
slenski hópurinn á tröppum ráðhússins í Kaupmannahöfn þar sem verðlaunaafhendingin fór fram.


Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðarráðherra afhenti verðlaun í flokki hrávöruframleiðenda.